Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

„Þetta er það versta sem ég hef séð í vetur“

14.01.2021 - 06:25
Mynd með færslu
 Mynd: Lögreglan á höfuðborgarsvæ? - Facebook
Mikil hálka er nú á höfuðborgarsvæðinu og verið er að salta helstu aðalleiðir. Þröstur Víðisson, yfirverkstjóri hjá vetrarþjónustu Reykjavíkurborgar biðlar til vegfarenda að fara með gát. „Þetta er stórhættulegt, sérstaklega vegna þess að þetta sést svo illa,“ segir Þröstur.

Þröstur segir að frostrigning hafi verið í nótt, hún hafi nú þykknað á götum og gangstéttum og valdi mikilli og glærri hálku sem erfitt sé að sjá. „Fólk getur ekið á svona kafla og ræður þá ekki neitt við bílinn,“ segir Þröstur.

Söltun á götum borgarinnar hófst um klukkan fjögur og er vonast til þess að allar aðalleiðir hafi verið saltaðar áður en mesta morgunumferðin hefst. Þröstur segir að staðan sé ekki betri í íbúðagötum og biður fólk um að fara með ítrustu gát. Hann segist ekki hafa heyrt af neinum slysum.

„Við erum að berjast við þetta áður en fólk fer á ferð. Vonandi dugar það. Þetta er það versta sem ég hef séð í vetur.“

annalth's picture
Anna Lilja Þórisdóttir