Það þarf ekkert alltaf allt að vera Kardemommubærinn

Mynd: ÍÓ / RÚV

Það þarf ekkert alltaf allt að vera Kardemommubærinn

14.01.2021 - 14:36

Höfundar

„Ég held að þetta sé óplægður akur við að kynna meira af óperum fyrir íslenskum áhorfendum,“ segir Greipur Gíslason.

Íslenska óperan er 40 ára í ár. Af því tilefni er litið til baka og góðra stunda minnst. Þátttakendur úr ýmsum áttum deila minningum sínum og upplifun af óperum.

Greipur Gíslason hefur unnið við upplýsingamál og framleiðslu á tónlist. Hann  fór reglulega á tónleika hjá Tónlistarfélaginu á Ísafirði meðan hann ólst upp. „Ég er eiginlega fullviss um að það að sitja á tónleikum og njóta þess er líka æfing,“ segir hann. „Ég er heppinn hvað það varðar að ég var látinn sitja á tónleikum.“

Sterk minning í Búdapest

„Ég var nú svo heppinn að sjá uppfærslu Íslensku óperunnar á óperunni Brothers í Búdapest,“ segir Greipur. „Það var auðvitað mjög eftirminnilegt. Ég hafði séð óperuna nokkrum sinnum áður, bæði þegar hún var frumflutt í Árósum og svo hér í Hörpu á Listahátíð. Þetta er ópera að mínu skapi, alveg klárlega.“

Peter Grimes eftir Benjamin Britten er önnur eftirminnileg uppsetning Íslensku óperunnar. „Ég held að það sé ein af mínum uppáhalds uppfærslum Íslensku óperunnar.“

Óperumenntun

Hann er í engum vafa um að það þurfi að kynna óperulistina betur fyrir íslenskum áhorfendum.

„Ég held að þetta sé óplægður akur við að kynna meira af óperum fyrir íslenskum áhorfendum. Þetta er auðvitað líka ferli hjá Óperunni að mennta og kynna formið fyrir hlustendum, fyrir tónleikagestum, þannig að þeir hafi þá áhuga á því að koma og sjá meira. Og þá kannski sérstaklega óperum sem eru nýrri eða sem er áhætta að setja upp. Ég held að þessi uppfærsla á Listahátíð fyrir nokkrum árum á Peter Grimes hafi verið þannig. Það þarf ekkert alltaf allt að vera Kardemommubærinn, sko.“

Tengdar fréttir

Klassísk tónlist

Heyrði óánægjuraddir um poppara í óperurullu

Klassísk tónlist

Sagði nei við söngkennara Diddúar

Tónlist

„Ef Kristján er til, sko þá er ég til“

Klassísk tónlist

„Vissum að hún væri að deyja“