
Telur takmarkanir á myndatökum af grenjum of íþyngjandi
Í erindi Umhverfisstofnunar til Ísafjarðarbæjar kemur fram stofnunin vilji breyta tveimur reglum af fimmtán sem gilda fyrir friðlandið Hornstrandir og voru settar fyrir aðeins tveimur árum. Önnur breytingin snýr að lendingu flugvéla en hin að myndatökum.
Í erindinu segir að það sé mat sérfræðinga sem hafa stundað rannsóknir á lífríki svæðisins að takmarka skuli fjölda veittra leyfa til myndatöku á þeim tíma sem refurinn er viðkvæmastur fyrir truflun. Og að aðeins skuli veita tvö leyfi til myndatöku við greni í Hornvík. „Truflun umfram það auk hefðbundinnar umferðar um svæðið er líkleg til að hafa neikvæð áhrif á afkomu refastofnsins á svæðinu“.
Þá leggur Umhverfisstofnun einnig til að þeir sem vilji sækja um leyfi fyrir drónaflugi og kvikmyndatöku innan friðlandsins frá 1. maí til 31.ágúst verði að vera búnir að skila umsókn fyrir 30. mars í stað 30. maí, eins og nú er. Með því sé tryggt að umsækjendur fái svar við sinni umsókn fyrr og því rýmri tími til undirbúnings ef leyfi er veitt.
Þá leggur Umhverfisstofnun einnig til að landeigendum innan friðlandsins verði heimilt að leyfa flugvélum að lenda á landi sínu. Það er þó bundið við að þetta séu ferðir á þeirra vegum vegna eftirlits og viðhalds. Áfram verður bannað að lenda innan friðlandsins utan lendingarstaða nema að fengnu leyfi Umhverfisstofnunar.