
Tímasetningin gæti vart orðið mikið verri, enda Ítalir líkt og fleiri þjóðir að glíma við kórónuveirufaraldurinn og efnahagsþrengingar af hans völdum. Að sögn Guardian bíða Conte nú tveir möguleikar. Annars vegar að biðja forsetann Sergio Mattarella lausnar, eða óska eftir traustsyfirlýsingu á þingi.
Nýtt umboð, þjóðstjórn eða kosningar
Fari hann til forsetans gæti Mattarella veitt honum umboð til þess að reyna að mynda nýja ríkisstjórn. Mattarella gæti einnig reynt að mynda þjóðstjórn. Ef það tekst ekki gæti þurft að boða til nýrra þingkosninga í landinu. Leiti Conte hins vegar á náðir þingsins er óvíst að stjórn hans njóti trausts, þar sem meirihluti hans er fallinn með brotthvarfi 18 þingmanna Italia Viva í efri deild úr stjórn hans.
Stjórnmálaskýrendur hrista hausinn vegna ákvörðunar Renzi, að sögn Guardian. Vinsældir hans hafa hrunið eftir að hann galt afhroð í þjóðaratkvæðageriðslu síðla árs 2016. Þá er flokkur hans með innan við þriggja prósenta fylgi í könnunum. Í skoðanakönnun Ipsos segjast yfir 70 af hundraði Ítala ekki skilja framferði Renzi, og að nú sé enginn tími fyrir stjórnarkreppu.