Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Stendur nú mest ógn af árásum innlendra öfgahópa

14.01.2021 - 23:00
Mynd: ASSOCIATED PRESS / Andrew Harnik
Rúmlega 20 þúsund þjóðvarðliðar standa vaktina í Washington næstu daga. Það er samdóma álit heimavarnaráðuneytisins og alríkislögreglunnar að Bandaríkjunum standi nú mest ógn af árásum innlendra öfgahópa.

Joe Biden tekur formlega við forsetaembættinu á miðvikudaginn í næstu viku en fjöldafundir hafa verið skipulagðir í höfuðborginni Washington fram að því.  Búist er við fjölmennum mótmælum bæði á sunnudag og miðvikudag.

Nú er unnið að því að byrgja glugga í húsum við þinghúsið og girða af stórt svæði í nágrenninu. Öryggisgæsla verður aukin til muna og tuttugu þúsund þjóðvarðliðar standa vaktina. Það eru fleiri bandarískir hermenn en nú eru að störfum í Írak og Afganistan til samans.

Rúmlega eitt hundrað komu til Washington í dag frá Illinois en nærvera þeirra á eftir að setja mikinn svip á athöfnina, eins og þinghúsinu í gær þegar þingmenn í fulltrúadeild samþykktu að ákæra Donald Trump forseta fyrir embættisglöp. Hann er ákærður fyrir að egna stuðningsmenn sína til að ráðast inn í þinghúsið á miðvikudaginn í síðustu viku.

Margir óttast að áhlaupið hafi aukið spennu meðal mótmælenda, burtséð frá því hvaða stjórnmálaskoðanir þeir aðhyllast. Í sameiginlegri yfirlýsingu alríkislögreglunnar og heimavarnaráðuneytisins sem birt var í dag er varað sérstaklega við árásum í kringum embættistökuna, og að ólíkir öfgahópar séu nú jafnvel að stilla saman strengi til að valda sem mestri upplausn í Bandaríkjunum næstu daga og vikur.