Sjúkrahúsið á Ísafirði á hættustig vegna smitsins á LSH

Mynd með færslu
 Mynd: Jóhannes Jónsson - RÚV
Sjúkrahúsið á Ísafirði hefur verið fært á hættustig vegna kórónuveirusmitsins sem greindist á Landspítalanum í gær. Smitaði sjúklingurinn sem liggur á spítalanum í Reykjavík hefur á síðustu dögum notið þjónustu á Heilbrigðisstofnun Vestfjarða.

Þrír starfsmenn sjúkrahússins á Ísafirði eru í sóttkví og þrír til viðbótar í úrvinnslusóttkví, sem hefur talsverð áhrif á þjónustu rannsóknardeildar spítalans, röntgendeildar og skurð- og slysadeildar.

Búið er að taka sýni og þau eru á leið suður til greiningar. Ef ekkert smit greinist verður hægt að aflétta hættustigi spítalans strax í kvöld.

Sjúklingurinn sem greindist með smit á blóð- og krabbameinsdeild Landspítalans greindist hafði farið í sýnatöku fyrir vestan en fengið neikvæða niðurstöðu fyrir kórónuveirunni. Hann var svo greindur á ný við innlögn í Reykjavík og greindist þá með smit.

„Þessi ákvörðun viðbragðsstjórnar stofnunarinnar var tekin til að gæta fyllsta öryggis,“ segir í tilkynningu á Facebook-síðu Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða. „Sjúklingum er ekki hætta búin og öllum alvarlegum tilvikum verður hægt að sinna. Sumir starfsmannanna hafa þegar fengið fyrri bólusetningu og eru þar með komnir með vörn að hluta fyrir veirunni.“

„Þetta minnir okkur á að við erum ekki komin fyrir vind. Agaðar sóttvarnir eru enn mikilvægar til að tryggja heilsu og öryggi íbúa og starfsmanna,“ er haft eftir Gylfa Ólafssyni, forstjóra Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða, í tilkynningunni.