Navalny gætt átt yfir höfði sér 3,5 ára fangelsisdóm

14.01.2021 - 10:57
epa08934340 Russian Opposition activist Alexei Navalny attends a rally in support of opposition candidates in the Moscow City Duma elections in downtown of Moscow, Russia, 20 July 2019 (reissued 13 January 2021). Navalny on 13 January 2021 stated on his Twitter account that he plans to travel to Moscow on Sunday, 17 January 2021.  EPA-EFE/SERGEI ILNITSKY
Alexei Navalny. Mynd: EPA-EFE - EPA
Rússneski stjórnarandstöðuleiðtoginn Alexei Navalny gæti átt yfir höfði sér þriggja og hálfs árs fangelsisdóm við komuna til Rússlands. Þetta hefur Reuters-fréttastofan eftir lögfræðingi hans. Navalny, sem tilkynnti í gærmorgun að hann ætlaði að snúa aftur til Rússlands á sunnudag, er sakaður um að hafa rofið skilorð með dvöl í útlöndum.

Navalny veiktist skyndilega í flugi á leið frá Síberíu til Moskvu í ágúst á síðasta ári. Flugvélinni var flogið til borgarinnar Omsk og Navalny lagður inn á sjúkrahús, en síðar var hann fluttur á sjúkrahús í Þýskalandi. Þar dvelur hann enn en segist nú stefna aftur til Rússlands þrátt fyrir hótanir um fangelsisvist.

Stjórnvöld í Kreml hafa hafnað öllum ásökunum um að hafa átt þátt í að eitra fyrir Navalny, og segja, þvert á mat lækna, að engar vísbendingar séu um að eitrað hafi verið fyrir honum.

Lögfræðingur Navalny segist óttast að skilorðsbundnum fangelsisdómi sem hann hlaut árið 2014 verði nú breytt í fangelsisvist á þeim forsendum að hann hafi rofið skilorð með dvöl sinni í útlöndum. Fangelsisyfirvöld í Rússlandi saka Navalny um að hafa ekki sinnt skyldum sínum og látið vita af sér í Rússlandi í lok síðasta árs en Navalny svarar ásökunum á þá lund að hann hafi enn verið í eftirliti á göngudeild á sjúkrahúsinu i Þýskalandi á þeim tíma og því ekki komist til Moskvu.

hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV