
Navalny veiktist skyndilega í flugi á leið frá Síberíu til Moskvu í ágúst á síðasta ári. Flugvélinni var flogið til borgarinnar Omsk og Navalny lagður inn á sjúkrahús, en síðar var hann fluttur á sjúkrahús í Þýskalandi. Þar dvelur hann enn en segist nú stefna aftur til Rússlands þrátt fyrir hótanir um fangelsisvist.
Stjórnvöld í Kreml hafa hafnað öllum ásökunum um að hafa átt þátt í að eitra fyrir Navalny, og segja, þvert á mat lækna, að engar vísbendingar séu um að eitrað hafi verið fyrir honum.
Lögfræðingur Navalny segist óttast að skilorðsbundnum fangelsisdómi sem hann hlaut árið 2014 verði nú breytt í fangelsisvist á þeim forsendum að hann hafi rofið skilorð með dvöl sinni í útlöndum. Fangelsisyfirvöld í Rússlandi saka Navalny um að hafa ekki sinnt skyldum sínum og látið vita af sér í Rússlandi í lok síðasta árs en Navalny svarar ásökunum á þá lund að hann hafi enn verið í eftirliti á göngudeild á sjúkrahúsinu i Þýskalandi á þeim tíma og því ekki komist til Moskvu.