Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Leikskólagjöld lægst í Reykjavík og hæst í Garðabæ

14.01.2021 - 16:52
Mynd með færslu
 Mynd: Leikskólinn Álfasteinn/alfaste - RÚV
Foreldrar í Reykjavík greiða lægri gjöld fyrir átta tíma leikskóladag en foreldrar annars staðar á landinu og foreldrar í Garðabæ greiða hæstu leikskólagjöldin. Þetta kemur fram í nýrri úttekt verðlagseftirlits ASÍ.

Almenn leikskólagjöld, fyrir átta klukkustunda leikskóladag með fæði, eru 27.255 krónur á mánuði hjá leikskólum á vegum Reykjavíkurborgar. Næst lægst er verðið í Mosfellsbæ, 30.138 krónur, og þriðju lægstu gjöldin eru hjá Seltjarnarnesbæ, 32.286 krónur. 

Garðabær rukkar mest, 53 prósentum hærra gjald en Reykjavíkurborg, 41.627 krónur. Akraneskaupstaður rukkar næst mest, 41.066 krónur. 

 

Fyrir foreldra með fleiri en eitt barn á leikskóla getur verðmunur milli sveitarfélaga verið 81 prósent, 313 þúsund krónur á ári, ef miðað er við leikskólavist tíu mánuði ársins. Lægsta verðið er í Reykjavík, bæði fyrir fjölskyldur með tvö börn á leikskóla og þær sem eru með þrjú börn. Ísafjarðarbær er með hæstu leikskólagjöldin fyrir fjölskyldur með tvö börn á leikskóla en Borgarbyggð hæstu gjöldin fyrir þrjú börn.

Gjöld hækka mest á Seltjarnarnesi en lækka í Mosfellsbæ

Milli áranna 2020 og 2021 hækka leikskólagjöld fyrir átta tíma skóladag með fæði mest á Seltjarnarnesi, um 11,1 prósent eða 3.234 krónur á mánuði. Næst mest hækka gjöldin hjá Akraneskaupsstað, um 4,7 prósent. Mest lækka almenn leikskólagjöld í Mosfellsbæ eða um 3,7 prósent. 

 

Dýrt að lengja skóladaginn

Leikskólagjöld hækka gjarnan verulega við það að lengja daginn um eina klukkustund. Almenn leikskólagjöld hækka um 45 prósent í Kópavogi þegar níundi tíminn bætist við og um 40 prósent í Reykjavík.

 

Þegar níundi tímanum er bætt við verður nokkur breyting á verðsamanburði milli sveitarfélaga. Gjaldið er þó áfram hæst í Garðabæ , 50.003 krónur, en Mosfellsbær skákar Reykjavíkurborg og hefur lægstu skólagjöldin fyrir níu tíma skóladag, 34.205 krónur. Næst lægst eru þau hjá Reykjavíkurborg, 38.052 krónur.

hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV