Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Landamæralögreglan hefur hafnað vottorðum um eldri smit

Mynd með færslu
 Mynd: Almannavarnir
Sigurgeir Sigmundsson, yfirlögregluþjónn flugstöðvardeildar lögreglustjórans á Suðurnesjum segir að síðan í desember hafi lögreglan hafnað fjölmörgum vottorðum um eldri smit sem fólk hefur viljað framvísa á landamærunum. Lögreglan á landamærunum er óánægð með að tillögur sóttvarnarlæknis um hertar reglur virðist ekki ætla að ná fram að ganga.

Tvöföld skimun við komuna til landsins, skimun 5 daga sóttkví og önnur skimun, var tekin upp nítjánda ágúst. Sigurgeir segir að hún hafi margsannað sig því yfir 600 smit hafi verið greind á landamærunum frá því í júní.

Sóttvarnalæknir hefur lagt til hertar reglur á landamærunum en í ljós hefur komið að hvorki er lagagrundvöllur fyrir því að skylda fólk í sýnatöku né fólk, sem neitar að fara í skimun, í sóttkví en það er meðal þess sem sóttvarnalæknir hefur lagt til. Lögreglan á landamærunum styður hugmyndir sóttvarnalæknis. „Og við vitum að það koma til landsins ferðamenn og aðrir sem eru ekkert að fara í þessa sóttkví þannig að við höfum stutt þessa tillögu Þórólfs heilshugar.“

Lagt hefur verið til að farþegar verði krafðir um neikvætt COVID-19 próf við komuna til landsins. Landamæralögreglan hefur nokkra reynslu af vottorðum. Sigurgeir segir að lögreglan hafi frá 10. desember tekið við á landamærunum vottorðum um eldri smit.  Leiðbeiningar um þau komi frá sóttvarnarlækni.
„En ákvörðunin liggur hjá okkur hvort við tökum þau gild eða ekki og við höfum hafnað fjölmörgum vottorðum frá 10. desember.“ 

Ekki sé mikið um ógild eða fölsuð vottorð enda þung viðurlög við því.  
„En við höfum fengið yfir 80 vottorð sem við höfum hafnað sem eru þá bara á tungumáli sem við tökum ekki gilt eða frá löndum sem við tökum ekki við vottorðum frá.“