Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Lagaheimildir sóttvarnalæknis þyrftu að vera skýrari

14.01.2021 - 11:46
Fundur 14.1.21
 Mynd: Almannavarnir - Ljósmynd
Fjöldi smitaðra í sumum flugvélum sem hafa verið að koma hingað til lands undanfarna daga hefur verið allt að 10%. Gangi tillögur sóttvarnalæknis eftir þurfa allir sem koma til landsins að framvísa vottorði um neikvæða sýnatöku fyrir komuna og það má ekki vera eldra en tveggja sólarhringa gamalt. Yfirlögregluþjónn flugstöðvardeildar Lögreglustjórans á Suðurnesjum segir óviðunandi að lagaheimildir sóttvarnalæknis skuli ekki vera skýrari.

Dæmi hafa verið um að fólk hafi smyglað sér til landsins í gegnum örugg lönd til að komast hjá sóttkví. Sóttvarnalæknir viðurkennir að hann hefði viljað sjá lagabreytingu á sóttvarnalögum fyrir áramót en hann ætli ekki að blanda sér í umræðu um einhverja pólitík.

Þetta kom fram á upplýsingafundi almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra og embættis landlæknis í morgun. Þar fór Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir yfir stöðu mála varðandi framgang COVID-19 faraldursins hér á landi ásamt Rögnvaldi Ólafssyni aðstoðaryfirlögregluþjóni. Gestur fundarins var Sigurgeir Sigmundsson, yfirlögregluþjónn flugstöðvardeildar Lögreglustjórans á Suðurnesjum. 

Rögnvaldur sagði að Ísland væri í einstakri stöðu til að létta á sóttvarnaráðstöfunum en víða um heim væri verið að auka þær. „En þetta er ekki búið. Það er viðkvæmt staða sem við erum í og það þarf ekki mikið til að faraldurinn fari af stað aftur.“

Nú er boltinn hjá okkur, sagði Rögnvaldur

Hann sagði að nú, þegar búið væri að rýmka samkomutakmarkanir, væri enn mikilvægara að fylgja þeim. „Þessar síðustu afléttingar þýða ekki að við erum að hvetja til þess að fólk sé að hittast, eða fullnýta það svigrúm sem er. Við erum heldur ekki að hvetja til þess að fólk fari á skíði á milli landshluta. Nú er boltinn hjá okkur, förum mjög varlega þarna úti.“

Það þarf að bregðast hratt við 

Þórólfur fór yfir stöðu mála varðandi framgang COVID-19 faraldursins hér á landi. Hann sagði ánægjulegt hversu fáir þeirra sem greinist séu utan sóttkvíar. Alls hafa 37 greinst með þetta breska afbrigði veirunnar, flestir á landamærunum en fjórir innanlands í tengslum við þá sem greinst hafa á landamærunum. „Við höfum ekki séð neina aðra útbreiðslu af þessu breska afbrigði. Það vekur hins vegar áhyggjur hversu margir hafa verið að greinast á landamærunum,“  sagði Þórólfur.

Hann sagði að í ljósi aukinnar útbreiðslu veirunnar erlendis, sérstaklega breska afbrigðisins, væri hætta á að smit bærist um landamærin og inn í samfélagið. 

„Fyrir nokkrum vikum var hlutfall smitaðra á landamærum langt undir 1% en nú nokkuð yfir 1% og í sumum vélum upp í 10%. Það er því ljóst að það þarf að bregðast við hratt,“ sagði hann

Þórólfur hefur lagt til við heilbrigðisráðherra að allir farþegar sem koma til landsins þurfi að framvísa neikvæðri sýnatöku fyrir komuna. Það megi ekki vera eldra en 48 klukkustundir. Þeir þurfa áfram að velja milli þess að fara í sýnatöku og fimm daga sóttkví á milli eða 14 daga sóttkví. Hann segir að ráðuneytið hafi ekki talið lagastoð fyrir fyrri tillögum hans um að sýnataka yrði skylda og að þeir sem gætu ekki farið í sýnatöku yrðu látnir vera í sóttkví í farsóttarhúsi.

Hann sagði ennfremur að von væri á 3.000 skömmtum af bóluefni frá Pfizer í næstu viku. Það stendur til að bólusetja elsta hópinn og svo gefa þeim sem voru bólusettir fyrst seinni sprautuna.

Fengu 40 manna hóp til að fara í sóttkví

Sigurgeir sagði að þegar svokölluð heimkomusmitgát hefði verið í gildi hefðu verið dæmi um að fólk hefði reynt að smygla sér til landsins frá löndum þar sem mikið var um smit og komast hjá sóttkví með því að koma hingað í gegnum öruggari lönd. Síðan í júní hefði tekist að koma í veg fyrir að um 600 smit bærust á þennan hátt inn í landið. 

Hann sagði að oft á tíðum væri erfitt að fá fólk til að fara í skimun. Fólk, sem segðist ætla að fara í sóttkví, gerði það svo ekki. „Við höfum snúið um 210 manns frá því að fara í sóttkví og fara í sýnatöku. Þannig höfum við komið í veg fyrir fjölmörg smit,“ sagði Sigurgeir og nefndi þar 40 manna hóp sem hefði ekki ætlað í skimun, en síðan reyndust um á annan tug þeirra smituð. „Það hefði ekki verið gott ef það hefði komist inn í landið,“ sagði Sigurgeir.

„Sóttvarnalæknir hefur í tvígang reynt að afnema þessa 14 daga sóttkví, en ekki tekist. Þetta er smuga á landamærunum.  Það er óviðunandi staða að ekki sé búið að laga löggjöfina. Sóttvarnalæknir skortir skýrari heimildir,“ sagði Sigurgeir. Oft hafi verið þörf á skýrari lögum en nú sé nauðsyn.