Jafnaðarmenn vilja mál Stöjberg fyrir Landsdóm

14.01.2021 - 10:31
Erlent · Danmörk · Evrópa
epa07419070 Danish Minister for Immigration, Integration and Housing Inger Stojberg (C) arrives at the start of a European Interior Ministers Council meeting in Brussels, Belgium, 07 March 2019.  EPA-EFE/OLIVIER HOSLET
Inger Stöjberg. Mynd: EPA-EFE - EPA
Inger Stöjberg, fyrrverandi varaformaður Venstre í Danmörku, verður að öllum líkindum látin svara til saka fyrir Landsdómi fyrir meint brot á meðan hún gegndi embætti ráðherra innflytjendamála.

Jafnaðarmannaflokkurinn undir forystu Mette Frederiksen forsætisráðherra lýsti yfir stuðningi við það í morgun og er þá meirihluti fyrir því á danska þinginu. Þingið afgreiðir svo málið í næsta mánuði.

Stöjberg varð ráðherra málefna innflytjenda í júní 2015 og hafði forgöngu um að herða löggjöfina í þeim málaflokki þá um haustið og voru mörg ákvæði þeirra laga afar umdeild.

Árið 2016 gaf hún út fyrirskipun um að aðskilja gifta hælisleitendur þar sem annar eða báðir höfðu ekki náð átján ára aldri. Það er fyrst og fremst þetta sem hún þarf væntanlega að svara til saka fyrir, en rannsóknarnefnd á vegum danska þingsins komst að þeirri niðurstöðu í síðasta mánuði að það hefði verið ólöglegt.

Í kjölfarið fór Jakob Elleman-Jensen, formaður Venstre, fram að Stöjberg léti af embætti varaformanns sem hún gerði rétt fyrir áramót, en áður hafði formaðurinn lýst stuðningi við að Landsdómur fjallaði um mál hennar.