Íhuga að banna ferðir frá Brasilíu vegna nýs afbrigðis

14.01.2021 - 12:57
epa08935395 A handout photo made available by the UK Parliament shows Britain's Prime Minister Boris Johnson during the Prime Minister's Questions (PMQs) in the House of Commons in London, Britain, 13 January 2021.  EPA-EFE/JESSICA TAYLOR/UK PARLIAMENT HANDOUT MANDATORY CREDIT: UK PARLIAMENT HANDOUT EDITORIAL USE ONLY/NO SALES
 Mynd: EPA-EFE - UK PARLIAMENT
Yfirvöld í Bretlandi íhuga nú að banna komur ferðamanna frá Brasilíu til koma í veg fyrir að nýtt afbrigði kórónuveirunnar sem þar hefur greinst berist til landsins.

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, lýsti í dag áhyggjum af nýja afbrigðinu og sagði að stjórnvöld myndu grípa til viðeigandi ráðstafana gagnvart Brasilíu og öðrum ríkjum þar í grennd. Þetta verður rætt á ríkisstjórnarfundi í dag. Eins og er er farþegum sem koma frá Brasilíu til Bretlands skylt að sæta tíu daga sóttkví.

Breska ríkisútvarpið BBC hefur eftir Susan Hopkins, prófessor og deildarstjóra hjá lýðheilsustofnun Englands, að nú standi til að rækta brasilíska veiruafbrigðið í rannsóknaskyni í Bretlandi. „Við þurfum að rannsaka þessi nýju afbrigði og stökkbreytingarnar sem þeim fylgja,“ segir hún.

Á aðfangadag tók gildi ferðabann frá Suður-Afríku til Bretlands eftir að nýtt afbrigði greindist í Suður-Afríku, og bannið var síðar lagt á fleiri ríki í nágrenni Suður-Afríku. Sóttvarnaráðstafanir á bresku landamærunum verða hertar til muna næsta mánudag þegar allir sem koma til landsins þurfa að framvísa vottorði um neikvæða niðurstöðu á COVID-prófi.