Handleggir græddir á Guðmund Felix í Lyon

Mynd: RÚV / RÚV

Handleggir græddir á Guðmund Felix í Lyon

14.01.2021 - 18:27

Höfundar

Guðmundur Felix Grétarsson, sem missti báða handleggi í vinnuslysi skammt frá Hafravatni fyrir meira en tveimur áratugum, gekkst undir aðgerð á sjúkrahúsinu í Lyon í gær þar sem græddar voru á hann tveir handleggir. Samkvæmt fréttum franskra fjölmiðla er honum haldið sofandi á gjörgæsludeild. Þetta er sögð einstök aðgerð í sögu læknavísindanna.

Vefur fríblaðsins 20minutes í Lyon greindi frá aðgerðinni í morgun. Þótt nafn Guðmundar sé hvergi getið í fréttinni er augljóst af lýsingum blaðsins að hann er sá sem gekkst undir aðgerðina. Haft er eftir talsmanni spítalans að ástand Guðmundar sé stöðugt og fylgst verði vel með líðan hans.

Í yfirlýsingu frá spítalanum kemur fram að aðgerðin hafi verið umfangsmikil se hafi krafist aðstoðar frá fjölda lækna og hjúkrunarfræðinga á svæðinu í kringum Lyon. Spítalinn ætli því ekki að tjá sig hvort aðgerðin hafi heppnast eða ekki fyrr en ljóst sé að Guðmundur sé úr allri hættu. Meira en fimmtíu læknar og hjúkrunarfræðingar tóku þátt í aðgerðinni.

Fram kemur á vef franska miðilsins RTL að tæknilega hafi aðgerðin heppnast mjög vel.

Á vef 20minutes  kemur fram að aðgerðin hafi teki rúmarð fjórtán klukkustundir og að Guðmundur hafi verið á biðlista í fimm ár. Spítalinn segir að nú verði að bíða og sjá hvernig líkaminn bregðist við ígræðslunni. 

Guðmundur ræddi við Jón Björgvinsson fyrir fréttastofu RÚV um jólin. Hann fluttist til Lyon til að vera nær sjúkrahúsinu í Lyon þar sem aðgerðin var framkvæmd. „Þegar símtalið kemur þá þarf ég að geta komist á spítalann bara innan við klukkutíma.“ Hann sagðist þá vera bjartsýnn á að hann myndi fá stóru gjöfina á þessu ári, gjöfina sem hann hafi dreymt um að fá í 22 ár.

Tengdar fréttir

Innlent

Bíður enn eftir gjöf sem hann hefur dreymt um í 22 ár