„Fólk var stundum vandræðalegt til að byrja með“

Mynd: Lilja Sigurðardóttir / Aðsend

„Fólk var stundum vandræðalegt til að byrja með“

14.01.2021 - 09:11

Höfundar

Lilja Sigurðardóttir var nýbúin að klára samræmdu prófin þegar hún hitti konuna sína, Margréti Pálu, í fyrsta skipti. Lilja varð strax skotin í Margréti sem er fimmtán árum eldri og þegar þær hittust aftur nokkrum árum síðar gafst Lilja ekki upp fyrr en hún sannfærði Margréti um að komast yfir eigin aldursfordóma og samþykkja stefnumót.

Lilja Sigurðardóttir, glæpasagnahöfundur, og Margrét Pála Ólafsdóttir, stofnandi Hjallastefnunnar, hittust fyrst þegar sú fyrrnefnda kom í heimsókn í vinnuna til móður sinnar sem deildi skrifstofuhúsnæði með Margréti Pálu.

Margrét og Jóna, móðir Lilju, voru ágætisvinkonur og Margrét tók eftir því að ung en bráðger dóttir Jónu fór að venja komur sínar á skrifstofuna og jafnvel oftar en tilefni var til. „Ég var reyndar undrandi á því hvað hún sótti það alltaf fast að sitja lengi og ég heyrði það í gegnum þunna veggina að hún var að sannfæra mömmu sína um að koma yfir til okkar eða að bjóða mér yfir í kaffi hjá henni,“ rifjar Margrét upp. Það varð fljótlega ljóst að Lilja hafði áhuga á þessari konu á skrifstofunni og vildi vera sem mest nálægt henni. Lilja og Margrét kíktu í Gestaboð til Sigurlaugar Margrétar Jónasdóttur og sögðu frá fyrstu kynnum og sambandinu sem fór hægt af stað en hefur staðið yfir í þrjá áratugi.

Vissi að Lilja hefði strax orðið skotin í Margréti

Erindi Lilju á skrifstofuna þennan dag sem þær fyrst sáust var að segja móður sinni hvað hún hefði fengið á samræmdu prófunum. Hún tók strax eftir Margréti Pálu, sem er fimmtán árum eldri, varð spennt fyrir þessari konu og fylgdist með henni útundan sér. Margréti fannst unga stúlkan líka áhugaverð þó hún hafi ekki séð hana í rómantísku ljósi til að byrja með, þegar hún var svo ung. „Mér fannst hún bráðskemmtilegt ungmenni, ótrúlega klár og skemmtileg,“ segir hún.

Á nýliðnu gamlárskvöldi rifjaði Margrét söguna upp við tengdamóður sína og vinkonu. „Ég sagði við frú Jónu: Ykkur leist kannski ekkert vel á þetta í byrjun, að við ætluðum að búa saman? Það er náttúrulega aldursmunurinn,“ segir Margrét Pála. En Jóna hafði fyrir löngu áttað sig á tilfinningum dóttur sinnar þegar þær loks fóru að rugla saman reitum. „Ég held hún hafi verið skotin í þér strax og ég vissi það,“ svaraði Jóna.

„Þurfti að sannfæra hana um að ég væri hin eina rétta“

Lilja bjó svo í útlöndum í nokkur ár en flutti heim þegar hún var rétt undir tvítugu og þá kynntust þær á nýjan leik. „Og þá var nú gaman,“ rifjar Magga Pála upp. En aldursmunurinn var þeim samt fjötur til að byrja með og það tók Margréti Pálu tíma að verða sannfærð um að gefa þessari ungu konu séns. „Þá þurfti ég að hafa dálítið fyrir því að sannfæra hana um að ég væri hin eina rétta,“ segir Lilja glettin.

Sönnunargang þess að stalking virkar

Þær hittust á galeiðunni, voru báðar staddar á skemmtistaðnum sáluga 22 þegar Lilja var að nálgast tvítugt og nýkomin út úr skápnum. Lilja fór strax að stíga í vænginn við Margréti sem í fyrstu haggaðist lítið. „Hún hafði engan áhuga á mér og ég þurfti að hafa svolítið fyrir því. Ég hef stundum sagt að sambandið okkar sé eitt af fáum sönnunargögnum þess að stalking virki,“ segir Lilja og hlær. „Það getur haft góðan endi.“

„Áttaði mig á að hún væri kona drauma minna“

Eftir nokkrar tilraunir Lilju lét Margrét til leiðast og samþykkti að fara á stefnumót þrátt fyrir aldursmuninn. „Ég hugsaði með mér, jæja þá, við skulum hittast og auðvitað átti ekkert meira að verða úr þessu.“ En stefnumótunum fjölgaði og loks þurfti Margrét Pála að viðurkenna fyrir sjálfri sér að hún væri líka að falla fyrir Lilju. „Mér brá svo þegar ég sat heima að horfa út um gluggann og ég áttaði mig á því að hún væri kona drauma minna. Hún hefði allt sem ég myndi falla fyrir, fyrir utan að vera svona klár, skemmtileg, hlý og dásamleg að öllu leyti. Ég var skotin í henni.“

Henni fannst Lilja vissulega ung en áttaði sig á því að hennar helsta hindrun væru hennar eigin fordómar. „Ég horfðist í augu við það að gott og vel, ef hún væri nokkrum árum eldri væri hún fullkominn lífsförunautur sem ég myndi ekki sleppa úr höndunum.“ Og þó hún hafi ekki þorað að vona að sambandið yrði langt ákvað hún að leggja sig fram við að halda í Lilju eins lengi og hægt væri.

Hafði enga trú á að þetta myndi endast

„Ég segi það hiklaust, og Lilja veit það mjög vel, að þetta er eina sambandið em ég hef farið í um dagana sem ég hafði ekki neina trú á að myndi endast. Ég vildi bara gefa því séns á meðan á því stæði,“ segir Margrét. Lilja segir að það viðhorf hafi í raun gagnast sambandinu, „því ef maður heldur að maður sé kominn í örugga höfn er maður kannski ekki að vanda sig. En síðan þetta var eru komin þrjátíu ár og þetta endist enn allavega.“

Stundum heyrðu þær af því eða fundu fyrir að fólk var undrandi á ráðahagnum því Lilja væri svo mikið yngri en Margrét. „Fólk var stundum vandræðalegt til að byrja með en svo eru allir búnir að venjast okkur,“ segir Lilja.

Búnar að synda yfir eitt jökulfljót

Margrét tekur undir og segir að þær hafi aldrei tekið slíkt umtal nærri sér. Hún ákvað það enda sjálf þegar hún komst yfir eigin aldursfordóma að láta það ekkert á sig fá þó sumir væru enn haldnir þeim. „Ég ákvað að það myndi ekki stjórna lífi mínu og líðan,“ segir hún.

Í kringum árið 1990 þegar þær voru að taka saman var ekki auðvelt fyrir alla að koma út úr skápnum og margir mættu fordómum í samfélaginu. Þegar Lilju hafði tekist að koma út fann hún fyrir slíkri frelsistilfinningu að það sem á eftir kom var alltaf yfirstíganlegt. „Þegar maður hefur synt yfir eitt jökulfljót sem er að koma úr felum og sættast við að vera lesbísk og velja sér konu sem lífsförunaut, þá verður allur annar skringileiki svo lítill í samanburði við það sem þú þarft að fara í gegnum hvað varðar viðhorf annarra. Þú ert búinn að brjóta rammann,“ segir Lilja. „Þá verður aldursmunur svo lítið mál.“

Elskar hana meira með hverjum deginum

Síðan Margrét lét til leiðast og hleypti Lilju inn í líf sitt hafa þær verið hamingjusamar saman og Margrét segir að sambandið styrkist með hverjum deginum. „Sannast sagna hef ég með hverjum deginum orðið hamingjusamari og elskað þessa konu meira.“

Þær eiga engin börn saman en Margrét átti dóttur á unglingsaldri þegar þær kynntust. Nú hefur hún eignast börn og meira að segja barnabarn svo Margrét og Lilja eru saman í ömmu og langömmuhlutverkinu. „Mér finnst það svolítið vel gert og þægilegt í framkvæmd,“ segir Lilja um þá stöðu að vera barnlaus langamma 48 ára. „Þú þarft ekki að hafa áhyggjur af börnunum sem foreldri en færð barnabörnin frítt.“

Engir tveir dagar eins í kringum Margréti

Þær búa saman í húsi við Elliðavatn sem þær hafa gert upp að hluta. Þar halda þær hænur og eiga saman aldraðan hund. Lilja er mikið fyrir hversdagslíf og rútínu en það gustar meira um Margréti sem leitar mikið í fjör og fjölbreytni. En hún hefur lært í sambúð með Lilju að skynja líka hamingjuna í hvunndeginum. „Það að vakna á hverjum morgni með lífsförunautnum sínum, það er ólýsanleg hamingja,“ segir hún. „Það er líka hamingja þegar okkur leiðist aðeins eða þú ert önnum kafin við eitthvað úti að brasa í hænsnaskúrnum og að reka mig til að standa mig í hænsnagjöfinni.“

Engir tveir dagar eru eins í lífi Margrétar Pálu og það er aldrei að vita hverju hún tekur upp á. „Ég er miklu leiðinlegri manneskja að því leyti að mér finnst mánudagar mjög fínir og þetta daglega líf, matur á ákveðnum tíma og að vinna í ramma,“ segir Lilja. „En oftast nær er ég sátt við þetta því við balanserum hvor aðra út. Ég reyni að halda henni í svona mundane hversdagsleika svo hún þeysist ekki út í geim. Um leið dregur hún mig í ævintýri.“

Hætti að drekka þegar Margrét fór í meðferð

Lilju var nokkuð brugðið fyrir tuttugu árum þegar Margrét tilkynnti henni að hún ætlaði í meðferð. „Það var kannski af því að hún var ekki svona einhver skaðræðisfyllibytta, meiri sófabytta,“ segir Lilja. „Mér fannst þetta skrýtið en ég sá fljótlega að lífið batnaði og ég hætti að drekka líka bara. Fyrir vikið eru helgarnar okkar langar og nytsamlegar og orkustigið hærra.“

Myndu hvorugar nenna meðalgóðu sambandi

Þær lenda sjaldan í því að þurfa frí frá hvor annarri en stundum þegar það eru miklar annir hjá þeim báðum taka þær sér frí bara tvær til að njóta samvista. Þeim er afar mikilvægt að sambandið sé sterkt og gott og að þær nái að stilla sig reglulega saman. „Þarna held ég að við séum mörgum kröfuharðari,“ segir Margrét. „Við viljum fá tíma hvor með annarri ekki bara samhliða tilvist. Bestu stundir okkar Lilju eru þegar við erum bara tvær.“ Lilja tekur í sama streng. „Ef maður er í sambandi á annað borð þá verður það eiginlega að vera gott. Það hljómar kjánalega en það er fullt af fólki sem sættir sig við að hafa sambandið meðalgott. Við myndum hvorugar nenna því.“

Best að vakna með tebolla og elskunni sinni við Tinu Turner í græjunum

Þær eru duglegar að minna sjálfa sig og hver aðra á hve heppnar þær eru og leggja sig fram við að líta aldrei á hvor aðra sem sjálfgefinn hluta af lífinu. „Það eru forréttindi að geta deilt lífi sínu með einhverjum. Maður verður að leggja sitt af mörkum svo að það sé gott,“ segir Lilja.

Hún til dæmis vekur konuna sína alltaf á afmælisdaginn með því að spila fyrir hana lag sem er í miklu uppáhaldi hjá þeim báðum, Simply the best með Tinu Turner. „You're simply the best, better than all the rest,“ fer Lilja með textann. „Er þetta ekki fallegra en hægt er að tjá, Lilja og Tina saman,“ segir Margrét þá. „Að vera vakin með tebollanum af elskunni minni og það er verið að blasta Tinu Turner í græjunum.“

Þær eru þakklátar fyrir lífið sitt saman með hænunum við Elliðavatn og Margrét Pála er fegin að hafa komist yfir sína eigin aldursfordóma og gefið Lilju séns. „Að elska konuna mína og meta hana meira með hverjum einasta degi, það er gjöf sem ég get aldrei fullþakkað fyrir.“

Sigurlaug Margrét Jónasdóttir ræddi við Lilju Sigurðardóttur og Margréti Pálu Jónsdóttur í Gestaboði á Rás 1.

 

Tengdar fréttir

Tónlist

„Mér líður ekki vel þarna inni“

Menningarefni

„Ef Tolli réttir út höndina er mín nákvæmlega þar“

Menningarefni

„Manstu ekki eftir mér? Ég er dóttir þín!"