Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Færri óttast smit og ungt fólk er með COVID-kvíða

Mynd með færslu
 Mynd: Shutterstock
Þeim fækkar sem óttast að smitast af COVID-19 og fleiri telja of mikið gert úr heilsufarslegri hættu sjúkdómsins. Þetta kemur fram í nýrri könnun Gallup á viðhorfi til ýmissa þátta sem tengjast kórónuveirufaraldrinum.

Þar kemur fram að þriðjungur Íslendinga óttast að smitast af COVID-19 Konur óttast það frekar en karlar og höfuðborgarbúar óttast smit meira en þeir sem búa á landsbyggðinni. Um helmingur óttast heilsufarsleg áhrif sjúkdóminn á samfélagið og hátt í 70% hafa áhyggjur af efnahagslegum áhrifum hans. 

Meira en 80% hafa breytt venjum sínum til að forðast smit, kjósendur Framsóknarflokksins eru líklegastir til að hafa gert það en kjósendur Miðflokksins þeir ólíklegustu. Þær venjur sem flestir hafa tekið upp eru að nota grímu og þvo eða spritta hendur sínar betur og oftar en áður. 

Um 80% treysta Almannavörnum og heilbrigðisyfirvöldum til að takast á við faraldurinn, konur treysta þeim fremur en karlar og eldra fólk fremur en það yngra. Mesta traustið er meðal þeirra sem kjósa Framsóknarflokkinn en það minnsta hjá kjósendum Miðflokksins. 

Rúmur þriðjungur aðspurða sagðist treysta ríkisstjórninni til að takast á við efnahagsleg áhrif COVID-19 og einn af hverjum tíu sagðist telja að of mikið væri gert úr heilsufarslegri hættu faraldursins.

Um fjórðungur segist finna fyrir COVID-kvíða og er það mest áberandi meðal ungs fólks. 43% fólk yngra en 30 ára segist finna fyrir kvíða vegna farsóttarinnar, sem er svipað hlutfall og undanfarna tvo mánuði.

Um 9% þeirra sem spurðir voru í könnuninni voru í sjálfskipaðri sóttkví og voru flestir þeirra 60 ára eða eldri. Þetta er nokkur fjölgun frá því í desember en talsverð fækkun frá því í vor þegar meira en fimmti hver Íslendingar var í sjálfskipaðri sóttkví.