Ekki ástæða til að skima alla sem leggjast inn

Mynd með færslu
 Mynd: Lögreglan
Enginn greindist smitaður á blóð- og krabbameinslækningadeild Landspítala. Tuttugu starfsmenn og þrjátíu sjúklingar voru skimaðir eftir að sjúklingur á deildinni greindist með kórónuveiruna í gær. Í ljósi þessa er búið að opna deildina á ný.

Hættustigi aflýst á Ísafirði

Sjúklingurinn hafði áður verið á sjúkrahúsinu á Ísafirði.  Þar reyndust líka allir neikvæðir. Spítalinn var settur á hættustig í morgun og allt starfsfólk sent í sýnatöku. Hættustigi hefur nú verið aflýst en starfsfólk rannsóknadeildar verður áfram í sóttkví fram í næstu viku og deildin ekki opnuð nema í neyð. 

Hættustigi aflýst Allir sem fóru í sýnatöku í morgun reyndust neikvæðir fyrir covid. Viðbragðsstjórn...

Posted by Heilbrigðisstofnun Vestfjarða on Fimmtudagur, 14. janúar 2021

Sjúklingurinn var sendur í sýnatöku í gær eftir að hann sýndi einkenni Covid-smits, hann er nú í einangrun. Þetta er í annað sinn í vikunni sem deild á Landspítala er lokað vegna kórónuveirusmits, í fyrradag greindist smit á hjartadeild, en það reyndist gamalt.

Ekki ástæða til að skima alla

Már Kristjánsson, formaður farsóttanefndar Landspítalans, segir ekki ástæðu til að skima alla sem leggjast inn á spítalann, það sé lítið um smit í samfélaginu og því hætt við fölskum, jákvæðum niðurstöðum. Allir sjúklingar sem eru fluttir af almennum deildum yfir á öldrunardeildir spítalans séu þó skimaðir og svo verði áfram.