Brúður lifna við og sjá heiminn

Mynd: Þjóðleikhúsið / RÚV

Brúður lifna við og sjá heiminn

14.01.2021 - 15:28

Höfundar

Geim-mér-ei er nýtt leikverk fyrir yngstu leikhúsgestina, flutt af brúðum í Kúlunni í Þjóðleikhúsinu.

Að baki sýningunni stendur leikhópurinn Miðnætti, sem glæðir brúðurnar lífi með sérstökum hætti. „Þetta er Bunraku brúðusýning og Bunraku brúðutækni. Það er sérstök japönsk tækni sem við í Miðnætti höfum stúderað. Það er ein stór brúða og það eru þrír leikarar á henni. Einn heldur í höfuð og hendi, einn í hendi og rass og einn í fæturna. Með þessari tækni geturðu í rauninni fengið brúðuna til að vera mjög raunverulega,“ segir Agnes Wild leikstjóri sýningarinnar sem jafnframt fer með eitt hlutverka. 

Meðal annarra leikara sýningarinnar er Þorleifur Einarsson, sem stýrir, ásamt fleirum, aðalpersónunni Völu. „Vala hefur rosalegan áhuga á geimnum og það má segja að hún kalli geiminn svolítið til sín. Það lendir geimskip á jörðinni og hún fer í geimskipið og slysast upp í geim. Og hittir þar geimveruna Fúmm og þau lenda í ævintýrum saman,“ segir hann.

Aðspurður segir Þorleifur sýninguna krefjast mikillar líkamlegrar túlkunar af hálfu leikara. „Þetta er í rauninni dans okkar brúðuleikaranna með brúðuna. Við erum með brúðunni í kringumstæðunum, þið þurfum að upplifa allt með henni, erum í rauninni að hjálpa henni að lifna við. Að lifna við og fá að sjá allan heiminn.“

Agnes segir sýninguna henta býsna breiðum hópi. „Þetta er svona ferðalagasýning. Skemmtilegt ferðalag, ekki of hræðilegt af því að þetta er fyrir yngstu krakkana. Þetta er fyrir 18 mánaða og eldri en ég myndi segja 8 eða 9 eða 10 fullorðin börn geti alveg haft áhuga á þessu líka og haft gaman. Rosa gaman. Þetta er svona fyrir alla,“ segir hún.