Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Bólusetning gengur mishratt á Norðurlöndunum

14.01.2021 - 12:06
Mynd: EPA-EFE / EPA
Stjórnvöld margra ríkja eru gagnrýnd fyrir hægagang í bólusetningum gegn kórónuveirunni. Ýmislegt hefur orðið til að tefja bólusetningar þó að bóluefni sé til staðar. Þetta gildir til dæmis um Noreg, þar var í gær aðeins búið að bólusetja rúmlega 20 þúsund á sama tíma og Danir hafa bólusett um 130 þúsund manns, hlutfallslega fleiri en önnur Norðurlönd eða rúmlega tvö prósent landsmanna.

Misjöfn staða á Norðurlöndunum

Danir hafa bólusett alla vistmenn hjúkrunarheimila, sem vildu láta bólusetja sig. Danir eru fremstir meðal Evrópusambandsþjóða. Í Noregi liggja yfirvöld undir verulegu ámæli vegna slæms skipulags og hægagangs. Dagblaðið Aftenposten segir að ef ekki verði breyting á verði aðeins búið að bólusetja um 11 prósent þjóðarinnar 1. apríl. Yfirlýst markmið Norðmanna var að búið yrði að bólusetja alla fullorðna fyrir sumarið.

Bólusetning fer hægt af stað í Finnlandi

Í Finnlandi hefur bólusetningin gengið hægt. Um helgina höfðu aðeins um 20 þúsund verið bólusett en sú tala hefur meir en tvöfaldast núna að því er sænska útvarpið segir. Innan við 100 þúsund hafa verið bólusett í Svíþjóð, eða innan við eitt prósent.

Næsthæsta hlutfall Norðurlanda á Íslandi

Á Íslandi er hlutfallið það næsthæsta á Norðurlöndunum á eftir Danmörku. Hér er það aðeins skortur á bóluefni sem takmarkar bólusetningu. Ísraelsmenn hafa bólusett hæst hlutfall íbúa í öllum heiminum eða tæp 24 prósent.