Bað allt starfsfólk Krua Thai afsökunar á hegðun sinni

Mynd: RÚV / RÚV

Bað allt starfsfólk Krua Thai afsökunar á hegðun sinni

14.01.2021 - 08:40

Höfundar

Þegar Jón Gnarr pantaði mat frá Krua Thai fyrir nokkrum árum grunaði hann ekki að með því færi af stað atburðarás sem endaði með því að hann þyrfti að biðja allt starfsfólk staðarins afsökunar.

Jón pantaði oft mat frá Krua Thai handa fjölskyldu sinni enda æðislegur matur sem allir gátu borðað, að hans sögn. Hann átti alltaf í vandræðum með að fletta staðnum upp á já.is. Þegar hann náði að skrifa Krua Thai rétt inn birtist alltaf nafn staðarins sem Tælenskt eldhús Krua Thai. Hann var því farinn að leita að orðinu tælenskt til einföldunar og þá kom upp rétt símanúmer. 

Kvöld eitt var Jón með um það bil 20 rétti tilbúna á blaði. Ung stúlka svaraði í símann og hann byrjaði að þylja upp þessa löngu og flóknu pöntun. Stelpan sem svaraði virtist þó eiga í erfiðleikum með að skilja pöntun Jóns sem innihélt ýmis smáatriði þar sem réttum var breytt. „Þetta tók ár og daga. Hún þurfti að tvítaka og þrítaka það sem ég var að segja. Eins og hún væri ekki með réttina og hún kannaðist ekkert við réttina sem þau voru með á matseðlinum,” segir Jón. Þegar hún byrjaði að véfengja pöntun Jóns var hann orðinn nokkuð pirraður. „Ef þú ert að vinna þarna þaftu að minnsta kosti að þekkja matseðilinn, er það ekki?” sagði Jón í símann. Að lokum tókst þetta allt saman og honum var tjáð að pöntunin yrði tilbúin eftir hálftíma. 

Þegar Jón mætti á Krua Thai var mikið að gera og biðröð á staðnum. Þegar komið var að hönum fannst pöntunin ekki. Þarna var honum algjörlega nóg boðið. „Ég versla hérna næstum því á hverjum einasta degi. Það hefur aldrei verið neitt mál. Núna svarar mér einhver stelpa sem talar ekki íslensku og talar ekki einu sinni ensku. Ég tala ekki tælensku sko. Hún skyldi ekki helminginn af því sem ég var að segja, hún kannaðist ekki við réttina sem ég hef samt margoft pantað hérna. Mér finnst þetta fyrir neðan allar hellur,” sagði Jón við afgreiðslufókið. 

Að lokum var kallað í eiganda staðarins, ákaflega elskulega konu sem Jón hafði margoft hitt áður. Þarna hellti hann sér yfir hana. „Mér finnst þetta ekki boðlegt. Ég er fastakúnni,” hreytti hann í konuna. Þarna var komin löng biðröð á eftir Jóni og bað hann aðra viðskiptavini afsökunar. „Fyrirgefðu að þetta er að taka svona mikin tíma, þau gerðu hérna mistök í afgreiðslunni og ég get bara ekki sætt mig við þetta. Ég er með fullt af fólki að bíða eftir mér heima,” sagði Jón.

Konan var algjörlega miður sín og bað hann innilega afsökunar. Hún tók svo sjálf pöntunina niður og sagðist ætla að afgreiða þetta eins fljótt og hægt væri. Á meðan voru allar aðrar pantanir settar á bið á meðan að pöntun Jóns var afgreitt. Jón segist hafa staðið eins og þrumuský og beðið eftir matnum á meðan hann útskýrði aðstæðurnar fyrir öðrum gestum. „Fyrirgefið þið þetta, það voru mistök sem þau gerðu. Ég hringdi nefnilega áðan og það talaði enginn íslensku,” sagði Jón við aðra gesti. 

Að lokum voru allir 20 réttirnir tilbúnir og Jón labbaði út með tvo úttroðna plastpoka. Eigandinn baðst aftur afsökunar og neitaði að taka við greiðslu. Jón kemur heim og segir gestum frá því sem átti sér stað, ægilega ánægður með sjálfan sig enda ekki þekktur fyrir að standa fastur á sínu. 

„Við sitjum þarna, allir að troða í sig hrísgrjónum, gómsætum sósum og kjúklingaréttum. Ég er þarna ropandi saddur að segja frá ævintýrum mínum,” segir Jón þegar síminn hringir og hann sér óþekkt fyrirtækjanúmer á skjánum. „Ég svara símanum og þá er einhver stúlka sem segir: “„Já, þetta er Tælenska matstofan, það er pöntun hérna fyrir Jón Gnarr sem hefur ekki verið sótt.” Svo telur hún upp allt sem ég hafði pantað. Þá er það annar tælenskur staður í Skeifunni,” segir Jón. En þarna hafði pöntun hans staðið ósótt í tvo klukkutíma. Á þessum tímapunkti segist Jón hafa verið á barmi taugaáfalls. Hann hafði þá óvart hringt í Tælensku matstofuna en ekki Tælenska eldhúsið. „Þau voru ekkert með sama matseðil og Krua Thai,” segir Jón. Hann hafi þó verið svo sannfærður um að hann hafði rétt fyrir sér að honum datt aldrei í hug að athuga hvort hann væri örugglega að tala við réttan veitingastað. 

Eftir að hafa sótt réttu pöntunina, og borðað tælenskan mat í viku tóku við þung skref á Krua Thai á Tryggvagötu. „Þetta var á mörkum þess að vera rasismi. Mér var svo misboðið,” segir Jón. „Ég bað þau öll afsökunar. Þegar þessi kona, þessi elskulega kona sem hafði kinkað kolli fyrir framan þusandi, tuðandi, misboðinn karl og lét mig fá allt ókeypis. Ég þakkaði eiginlega ekki fyrir það. Mér fannst ég eiga það skilið. Ég var næstum því farinn að grenja, ég skammaðist mín svo mikið,” segir Jón.

Hægt er að hlusta á allan þátt Tvíhöfða hér.

Tengdar fréttir

Tónlist

Tvíhöfði hlær að COVID-veikum frænkum sínum