Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

7 andlát tilkynnt til Lyfjastofnunar eftir bólusetningu

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Vilhjálmur Þór Guðmun - RÚV
Sjö andlát hafa verið tilkynnt til Lyfjastofnunar eftir fyrstu bólusetninguna í lok desember, allt aldraðir með undirliggjandi sjúkdóma á hjúkrunar-eða dvalarheimili. Alls hefur 61 tilkynning borist um aukaverkanir. 13 tilkynningar um andlát hjá elsta og viðkvæmasta hópnum í Noregi hafa borist Lyfjastofn Noregs eftir að bólusetning hófst þar. Þar verður mælst til þess að læknar meti hvort nauðsynlegt sé að bólusetja einstakling sem er aldraður, veikur og á stutt eftir.

Rúna Hauksdóttir Hvannberg, forstjóri Lyfjastofnunar Íslands,  segir í samtali við fréttastofu að tilkynningum um aukaverkanir eftir fyrstu bólusetninguna í lok desember hafi fjölgað en þær eru rúmlega sextíu; átta alvarlegar aukaverkanir og sjö andlát. Hún segir að stofnunin gefi ekki upp nein sérstök tímamörk á því hversu langur tími þarf að líða frá bólusetningu. 

Í fyrstu bólusetningunni var einblínt á viðkvæmasta hópinn sem er aldrað fólk með undirliggjandi sjúkdóma á hjúkrunar-og dvalarheimilum. Von er á niðurstöðum rannsóknar tveggja öldrunarlækna á áhrifum bóluefnis á aldrað fólk hér á landi.  Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, hefur sagt að niðurstaðan úr þeirri rannsókn þurfi að liggja fyrir áður en seinni sprautan af Pfizer-bóluefninu verður gefin í næstu viku. Hann hefur jafnframt bent á að um tíu til tuttugu deyi á hjúkrunarheimilum í viku hverri. 

Á vef NRK kemur fram að 13 andlát hafi verið tilkynnt til Lyfjastofnunar Noregs eftir að bólusetning hófst. Þau voru öll hjá fólki sem var eldra en 80 ára og sumir eldri en 90 ára.  Fram kemur á vef VG að alls hafi Lyfjastofnun Noregs borist 29 tilkynningar um aukaverkanir eftir bólusetningu; þrettán dauðsföll, níu alvarlegar aukaverkanir og sjö minna alvarlegar aukaverkanir.

Steinar Madsen, fagstjóri hjá Lyfjastofnun Noregs, segir í norskum fjölmiðlum að þetta valdi þeim ekki miklum áhyggjum. Ekki sé mikil áhætta fólgin í bólusetningu.  Meðal alvarlegra aukaverkana voru ofnæmisviðbrögð, hár hiti og mikil ónot.  Minni alvarlegar aukaverkanir voru óþægindi í kringum stungustað.

Madsen bendir á að andlát eftir bólusetningu séu mjög sjaldgæf og mörg þúsund alvarlegra veika hafi verið bólusettir án þess að það hafi leitt til dauða. Lyfjastofnunin ætli engu að síður að mælast til þess að læknar meti það hverju sinni hvort nauðsynlegt sé að bólusetja aldraðan einstakling með alvarlegan undirliggjandi sjúkdóm sem eigi stutt eftir. 

Búið er að bólusetja rúmlega 5.500 hér á landi með bóluefni frá Pfizer og Moderna. Von er á þrjú þúsund skömmtum af Pfizer-bóluefninu í næstu viku.