Youtube slekkur tímabundið á Trump

13.01.2021 - 06:55
epa08706558 US President Donald J. Trump and First lady Melania Trump wave to supporters as they walk across the South Lawn to Marine One at the White House in Washington, DC, USA, 29 September 2020. Trump is traveling to participate in the First Presidential Debate against former Vice President Joe Biden in Cleveland, Ohio.  EPA-EFE/KEN CEDENO / POOL
 Mynd: epa
Youtube bættist í nótt í hóp þeirra vefmiðla sem banna efni frá Donald Trump Bandaríkjaforseta. Forsetinn má ekki hlaða upp nýjum myndböndum á miðlinum næstu sjö daga vegna brota á reglum hans. Auk þess greinir Youtube frá áhyggjum sínum yfir mögulegu ofbeldi.

NBC fréttastofan segir Youtube einnig hafa bannað ummæli við myndbönd forsetans ótímabundið. Eins var eytt nýju efni sem bætt var við af forsetanum í gær.

Forsetanum var úthýst af Facebook og Instagram í síðustu viku eftir innrás múgs inn í þinghús Bandaríkjanna. Múgurinn samanstóð af stuðningsmönnum forsetans, sem höfðu skömmu áður hlýtt á ræðu Trumps þar sem hann hvatti þá til þess að fara í þinghúsið.

Aðgangi Trumps að Twitter var eytt af stjórnendum síðunnar í síðustu viku. Forsetinn hefur haft mikið dálæti af Twitter og nýtti miðilinn til þess að greina frá helstu stefnumálum sínum. 

Þeir eru fáir samfélagsmiðlarnir sem Trump getur tjáð sig á, því aðgangur hans að vefunum Snapchat og Twitch er einnig hindraður tímabundið.
Forsetinn verður að öllum líkindum ákærður fyrir að hvetja til árásarinnar á þinghúsið á morgun. Þingmenn fulltrúadeildarinnar greiða þá atkvæði um ákæruna. Fimm flokkssystkin Trumps í Repúblikanaflokknum hafa lýst því yfir að þau ætli að greiða atkvæði með ákærunni.