Vinnsla hafin á ný í frystihúsinu á Seyðisfirði

Mynd með færslu
 Mynd: Hólmfríður Dagný Friðjónsd - RÚV
Vinnsla í frystihúsi Síldarvinnslunnar á Seyðisfirði hófst í morgun í fyrsta sinn eftir að aurskriða féll á bæinn skömmu fyrir jól. Rekstrarstjóri segir afar ánægjulegt að sjá að lífið sé aftur að færast í fyrra horf í bænum.

Mikilvægt að hjólin fari að snúast á ný

Það ríkti mikil gleði í frystihúsi Síldarvinnslunnar á Seyðisfirði í morgun þegar vinnsla hófst á ný eftir skriðuföllin í desember. Ómar Bogason, rekstrarstjóri segir mikilvægt fyrir samfélagið að hjól atvinnulífsins séu nú aftur farin að snúast.

„Finnst stundum eins og súkkulaðiverksmiðja"

„Við reyndar erum að fara í gegnum skriðuna, að keyra til og frá vinnu. Þannig að við nýtum litla rútu í það svo við séum ekki að fara á tímum sem eru óheppilegir. Svo erum við búnir að undirbúa þetta líka vel og nýta tímann fram að þessu til að ræða við fólk og fara yfir stöðuna en vissulega er þetta ekki búið við höfum enn þá áhyggjur af leiðinni til og frá vinnu. Það á alveg eftir að koma í ljós hvernig það muni ganga," segir Ómar.

Eigið þið nóg af hráefni og er nóg að gera?

„Já, við erum í mjög góðum málum, Gullver var að landa hérna í morgun og við lönduðum bara á okkar venjuleg stað hérna við fiskvinnsluna. Mér finnst þetta stundum eins og súkkulaðiverksmiðja, við erum alltaf með nóg hráefni og höfum ekki þurft að hafa áhyggjur af því eftir að Síldarvinnslan tók yfir rekstur hér á Seyðisfirði."

Mynd með færslu
 Mynd: Síldarvinnslan/Ómar Bogason - Gullver
Gullver kom til hafnar í morgun