Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Vill upplýsingar um viðbrögð við alþjóðlegum mútubrotum

13.01.2021 - 12:49
Mynd með færslu
 Mynd:
Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis tók í dag fyrir nýútkomna skýrslu OECD þar sem íslensk stjórnvöld eru harðlega gagnrýnd fyrir slæleg viðbrögð við alþjóðlegum mútubrotum. Jón Þór Ólafsson, formaður nefndarinnar, segist í samtali við fréttastofu hafa óskað eftir því að dómsmálaráðuneytið tæki saman gögn yfir það hvað nú þegar hefði verið gert til að bregðast við alþjóðlegum mútubrotum og hvernig stæði til að bregðast við athugasemdum OECD.

Fyrir nefndina komu Ragna Bjarnadóttir, skrifstofustjóri skrifstofu almanna- og réttaröryggis í dómsmálaráðuneytinu, Kjartan Ólafsson, sérfræðingur á sömu skrifstofu, og Árni Múli Jónasson frá Íslandsdeild Transparency International.

Vonar að „ráðuneytið hafi þá burði sem þarf“

„Ég vildi vita hvort, í þessu fyrsta máli af þessum toga hér á landi, Samherjamálinu, teldi ráðuneytið sig hafa þá burði sem þyrfti,“ segir Jón Þór. „Dómsmálaráðuneytið vildi meina að svo væri og talaði um að það væri mjög rík skylda til að skoða svona mál, vegna alþjóðlegra skuldbindinga. Svo töluðu þau um ríka frumkvæðisathugunarskyldu og að minnsti grunur um brot væri nóg. Íslensk stjórnvöld hafi verið gagnrýnd fyrir að taka ekki frumkvæði í þessum málum. En nú vonum við að ráðuneytið hafi þá burði sem þarf. Vonum að þetta sé vel unnið,“ segir hann en þess má geta að Héraðssaksóknari hefur Samherjamálið til rannsóknar. 

Alvarlegar athugasemdir OECD

Í skýrslu OECD, sem fréttastofa fjallaði um um miðjan desember, segir meðal annars að íslensk stjórnvöld hafi ekki sinnt alþjóðlegum mútubrotum með fullnægjandi hætti og að Ísland þurfi að bæta verulega getu til að greina mútur og merki þess að slík brot eigi sér stað hér á landi.

Skýrsluhöfundar hafa töluverðar áhyggjur af aðgerðaleysi íslenskra stjórnvalda í mútu- og spillingarmálum. Ekki síst vegna þess að á þeim 20 árum sem liðin eru síðan umræddur sáttmáli tók gildi hefur Ísland ekki rannsakað neitt alþjóðlegt mútubrot, fyrr en rannsókn á Samherjamálinu hófst. Í skýrslunni kemur einnig fram að stjórnvöld hafi ekki sýnt málefninu nægan áhuga. Til dæmis hafi fáir hátt settir embættismenn látið sjá sig á kynningarfundum og vinnufundum og síðan 2017 hafi engir embættismenn héðan mætt á óformlega vinnufundi í tengslum við sáttmálann. Þá eru stjórvöld gagnrýnd fyrir að sýna ekki frumkvæði í málum sem tengjast alþjóðlegum mútum.

Ráðuneytið tali um forgangsröðun og manneklu

Aðspurður hvort athugasemd OECD um áhugaleysi íslenskra stjórnvalda á málefninu hafi verið tekin fyrir á fundinum í morgun segir Jón Þór að ráðuneytið hafi bent á forgangsröðun og manneklu í því samhengi. „En það er ljóst að eftirlit hefur ekki verið sett í forgang, það er undirfjármagnað á öllum stöðum, til dæmis skattaeftirlit og umboðsmaður Alþingis,“ segir hann.

Í skýrslunni er einnig bent á að hætta á spillingu hér á landi kunni að vera vanmetin, enda sé ljóst að þótt Ísland hafi komið vel út úr mælingum á spillingarvísitölu þjóða á lista Transparency International, dugi ekki að treysta aðeins á slíkar mælingar. Það skapi hættu á því að stjórnvöld afneiti jafnvel spillingarhættu.

Spurður um þetta segir Jón Þór að fulltrúi Transparency International á fundinum hafi einmitt talað um ríkt tilefni til frumkvæðisrannsókna hér á landi, ekki síst í ljósi mikilla umsvifa íslenskra fyrirtækja á mörkuðum þar sem mútur eru þekkt vandamál.

„Svo þarf líka að hafa í huga hvað mæling Transparency International er þröng og hún mælir mjög afmarkað svið spillingar. Þar er ekki verið að mæla hvort íslenskir viðskiptaaðilar séu að múta erlendum aðilum heldur bara hvort það sé spilling innan hins opinbera. Spillingin hér á landi er í formi frændhylgi og hún mælist ekki á listum Transparency International,“ segir hann.

Ræddu ekki gagnrýni á refsirammann

Skýrsluhöfundar OECD furða sig sérstaklega á refsirammanum gegn mútubrotum á Íslandi. Ekki síst því að refsingin fyrir að þiggja mútur sé þyngri en fyrir að greiða mútur, en þeir sem verða uppvísir að því að þiggja mútur geta átt yfir höfði sér sex ára fangelsisdóm.

Í skýrslunni kemur fram að íslensk stjórnvöld hafi sagst telja refsingu við því að greiða mútur nægjanlega. Vísað er til þess að fulltrúar dómsmálaráðuneytisins hafi sagt á fundi árið 2018 að munurinn á refsingum við því að þiggja mútur annars vegar og að greiða þær hins vegar skýrðist af því að samkvæmt íslenskri löggjöf teldist alvarlegri glæpur að þiggja mútugreiðslur en að greiða þær.

Aðpurður hvaða svör fengust við þessu frá ráðuneytinu og hvort það standi til að endurskoða refsirammann segist Jón Þór ekki hafa spurt um þetta atriði. „Nei, það var ekki rætt um þetta,“ segir hann.