
Úrskurðaður í gæsluvarðhald eftir dóm fyrir manndráp
Lögreglunni á Suðurnesjum barst tilkynning um andlát konunnar í lok mars. Í fyrstu benti ekkert til að eitthvað saknæmt hefði átt sér stað en eftir skoðun réttarmeinafræðinga vaknaði grunur um að henni hefði ráðin bani. Fjórum dögum eftir andlátið var maðurinn handtekinn og úrskurðaður í gæsluvarðhald.
Hann var síðan ákærður fyrir manndráp í júní en um miðjan október ákvað Landsréttur að fella úr gildi gæsluvarðhald yfir honum. Dómkvaddir matsmenn höfðu þá komist að þeirri niðurstöðu að mögulegt væri að konan hefði látist af samverkandi áhrifum róandi lyfja og áfengis.
Aðalmeðferð í málinu fór fram í nóvember og í dag dæmdi fjölskipaður dómur héraðsdóms manninn í fjórtán ára fangelsi. Engar miskabótakröfur voru hafðar upp í málinu og ekki hefur verið bókað hvort dómnum verði áfrýjað til Landsréttar.