Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Tuttugu í stað tíu — ennþá tveir metrar og grímur

Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV
Nýjar sóttvarnareglur tóku gildi á miðnætti. Nú mega tuttugu koma saman í stað tíu áður, veitingastaðir mega taka á móti tuttugu gestum í stað fimmtán og líkamsræktarstöðvar mega nú hafa opið fyrir hóptíma með helmingi leyfilegs hámarkfjölda gesta. Íþróttaæfingar barna og fullorðinna með allt að fimmtíu þátttakendum eru heimilaðar, einnig íþróttakeppnir án áhorfenda, og skíðasvæði mega opna.

Tveggja metra reglan er ennþá í gildi og grímuskylda þar sem ekki er hægt að tryggja slíka fjarlægð. Börum og skemmtistöðum er áfram gert að hafa lokað. 

Á sviði mega vera allt að 50 manns á bæði æfingum og sýningum. Hámarksfjöldi gesta í sal er 100 fullorðnir og 100 börn fædd 2005 og síðar og skrá á sæti á nafn. Í útförum mega 100 vera viðstaddir og teljast börn fædd 2005 eða síðar ekki með í þeirri tölu. Hámarksfjöldi gesta í erfidrykkjum er 20. 

Þá varð sú breyting á sóttvörnum við landamærin að börnum fæddum 2005 eða síðar verður nú skylt að sæta sóttkví við komuna til landsins.

Reglurnar gilda í fimm vikur, til 17. febrúar.