Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Tregir til að hitta Mike Pompeo

13.01.2021 - 16:05
epa08933377 (FILE) - US Secretary of State Mike Pompeo leaves a press conference following a meeting with a North Korean official in New York, USA, 31 May 2018 (reissued 12 January 2021). The US State Department on 12 January 2021 announced that State Secretary Mike Pompeo's trip to Belgium has been cancelled. The trip was scheduled for 13-14 January.  EPA-EFE/JUSTIN LANE
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Mike Pompeo hefur aflýst sinni síðustu heimsókn til Evrópu sem utanríkisráðherra Bandaríkjanna. Ástæðan er sögð sú að hann vilji taka þátt í að tryggja að allt gangi vel þegar Joe Biden og Kamala Harris sverja embættiseið í Washington að viku liðinni. 

Pompeo hugðist fara til Lúxemborgar og Brussel. Að sögn Reuters fréttastofunnar er ástæðan fyrir því að ferðinni var aflýst líkast til sú að Jean Asselborn, utanríkisráðherra Lúxemborgar, neitaði að hitta hann. Sömu sögu er að segja um hátt setta embættismenn Evrópusambandsins. Að sögn Reuters þykir vandræðalegt þar á bæ að hitta Mike Pompeo eftir árás stuðningsmanna Donalds Trumps á þinghúsið í Washington í síðustu viku.

Pompeo hefur fordæmt árásina, sem varð fimm manns að bana, en ekki tekið undir að hún hafi verið að undirlagi Trumps. Daginn eftir hana sagði Asselborn í viðtali við RTL útvarpsstöðina að Bandaríkjaforseti væri glæpamaður og pólitískur brennuvargur. 

Mike Pompeo er ekki sá eini í Bandaríkjastjórn sem þarf að aflýsa sinni síðustu ferð í embætti. Kelly Craft, sendiherra hjá Sameinuðu þjóðunum, hefur einnig greint frá því að ekkert verði af fyrirhugaðri ferð hennar til Taívans. 

asgeirt's picture
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV