
Tregir til að hitta Mike Pompeo
Pompeo hugðist fara til Lúxemborgar og Brussel. Að sögn Reuters fréttastofunnar er ástæðan fyrir því að ferðinni var aflýst líkast til sú að Jean Asselborn, utanríkisráðherra Lúxemborgar, neitaði að hitta hann. Sömu sögu er að segja um hátt setta embættismenn Evrópusambandsins. Að sögn Reuters þykir vandræðalegt þar á bæ að hitta Mike Pompeo eftir árás stuðningsmanna Donalds Trumps á þinghúsið í Washington í síðustu viku.
Pompeo hefur fordæmt árásina, sem varð fimm manns að bana, en ekki tekið undir að hún hafi verið að undirlagi Trumps. Daginn eftir hana sagði Asselborn í viðtali við RTL útvarpsstöðina að Bandaríkjaforseti væri glæpamaður og pólitískur brennuvargur.
Mike Pompeo er ekki sá eini í Bandaríkjastjórn sem þarf að aflýsa sinni síðustu ferð í embætti. Kelly Craft, sendiherra hjá Sameinuðu þjóðunum, hefur einnig greint frá því að ekkert verði af fyrirhugaðri ferð hennar til Taívans.