Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Þórólfur vill COVID-vottorð á landamærin

Mynd með færslu
 Mynd: Almannavarnir
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir hyggst leggja til við heilbrigðisráðherra að vottorð um neikvætt COVID-próf verði tekin gild á landamærunum. Hann segir að leita þurfi allra leiða til að hindra að smit berist inn í landið. Á hverjum degi berst embætti sóttvarnalæknis fjöldi beiðna um að komast framar í bólusetningarröðina. 

Nýjar sóttvarnareglur tóku gildi á miðnætti, meðal annars var slakað á fjöldatakmörkunum, Þórólfur segir að eftir sem áður þurfi að gæta að sóttvörnum. 

„Þó það sé verið að slaka almennt á þá er þetta ekki tíminn til að halda partý eða fara í stórar veislur eða safnast saman. Það er akkúrat þar sem smitin verða,“ sgir Þórólfur.

Í gær greindust 26 smit á landamærunum, þar af voru sex þeirra virk í fyrri sýnatöku og fjögur í þeirri seinni. Þórólfur segir að þessi fjöldi smita á landamærunum endurspegli stöðu faraldursins víða um heim. Hann segir að flestir þeirra sem hafa greinst undanfarið hafi verið að koma frá Póllandi. Til stendur að ákveða nýjar landamæraaðgerðir fyrir föstudag og Þórólfur segir að leita þurfi allra leiða til að hindra að smit  berist inn í landið.

„Meðan menn telja að það sé ekki lagagrundvöllur til að skylda fólk sem er grunað um smit í sóttkví eða skylda það í sýnatökur, þá verðum við að reyna að grípa til einhverra annarra ráða. Eins og til dæmis aðrar þjóðir hafa verið að gera er að skylda fólk til að mæta með vottorð upp á neikvætt próf sem var tekið skömmu fyrir komu. Það er eitthvað sem við erum að skoða,“ segir Þórólfur.

Á hverjum degi berst embætti sóttvarnalæknis fjöldi beiðna frá fólki sem vill komast framar í bólusetningarröðina vegna þess að það sé í mikilvægum störfum. 

„Það gegna allir mjög mikilvægu hlutverki í þessu samfélagi, menn eru bara að færa rök fyrir því að þeir eigi að vera framar. En vegna þess að það er tiltölulega lítið af bóluefni að koma byggist forgangsröðunin okkar núna á því að bólusetja fyrst þá sem eru í áhættu að smitast af COVID og svo þá sem eru í áhættu á að fá alvarlega sýkingu af COVID. Við erum ekki að flokka einstaklinga eftir þjóðfélagslegu mikilvægi.“