Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

„Þetta er bara svona sjórusl, það á að vera hérna“

Mynd með færslu
 Mynd: Loftslagsdæmið

„Þetta er bara svona sjórusl, það á að vera hérna“

13.01.2021 - 14:02

Höfundar

„Finnst þér auðvelt að vera umhverfisvæn, Ingibjörg?“ Spyr Iðunn Hauksdóttir, Ingibjörgu, þriggja ára dóttur sína. Þær eru niðri í fjöru á æskuslóðum Iðunnar í Staðarsveit á Snæfellsnesi, að tína rusl. „Heldurðu að þú sért umhverfissóði eða miljösvin eins og Danirnir segja?“ Spyr Iðunn glettin þegar dóttirin svarar neitandi.

„Við höfum tínt alveg óhemju mikið af rusli sem fýkur úr sjónum og þetta er alveg rosalega mikið af eyrnapinnum en líka skór og alls konar dót en mest bara plastdrasl. Þó við hreinsum og hreinsum skolast alltaf eitthvað nýtt upp og ég var vön þessu, fannst bara að fjaran ætti að vera full af drasli sko, gaman að skoða það en svo fór ég hérna með vini mínum einhvern tímann og hann horfði og sagði úff, ægilega mikið rusl hérna, og ég hara ha? Þetta er bara svona sjórusl, það á að vera hérna, netakúlur og svona en svo fattaði ég að kannski ætti þetta ekkert að vera þarna, þá fórum við í smá átak og ég keypti mér svona ruslaprik, mig minnir að ég hafi verið ólétt og það var svo vont að beygja sig,“ segir Iðunn. 

Iðunn, Ingibjörg og kötturinn Snúður, búa á Hvanneyri og eru ein fjögurra fjölskyldna sem taka þátt í Loftslagsdæminu, verkefni sem nú er fjallað um á Rás 1 í samnefndum þáttum. 

Í þáttunum skora fjórar ólíkar fjölskyldur vanann á hólm og breyta lífi sínu með það að markmiði að minnka kolefnisspor heimilisins um fjórðuing. Þær njóta handleiðslu sérfræðinga, leita svara við spurningum sem kvikna og tjá sig opinskátt um reynslu sína. 

Vill gera meira gagn heima

Iðunn ákvað snemma að helga sig umhverfis - og loftslagsmálum, þegar hún var í sjöunda eða áttunda bekk tók skólinn hennar þátt í Grænfánaverkefni á vegum Landverndar og að hafði mikil áhrif á hana. Nú er hún sérfræðingur hjá Landgræðslunni, sér um að koma endurheimt votlendis í verk og var einmitt að endurheimta land á jörð foreldra hennar á Snæfellsnesi. 

Iðunn gerir hellings gagn í vinnunni en myndi vilja gera meira fyrir loftslagið heima. Hvanneyrarfjölskyldan er eina dreifbýlisfjölskyldan sem tekur þátt í Loftslagsdæminu og stendur því frammi fyrir öðrum áskorunum en þéttbýlisfjölskyldurnar, það er enginn stórmarkaður á Hvanneyri. Iðunn velti líka upp mörgum áhugaverðum spurningum í umsókninni sinni. Þess vegna kom ekki annað til greina en að hafa þær mæðgur með í dæminu. 

Við kynnumst Iðunni, Ingibjörgu og neyslu þeirra í öðrum þætti af Loftslagsdæminu. Hér má nálgast á þáttinn. 

Tengdar fréttir

Menningarefni

„Ég hef svolítið stjórnað þessu hjá okkur“

Menningarefni

„Nú eigum við svo mikið af börnum“

Menningarefni

Hrun siðmenningar ekki óumflýjanlegt

Menningarefni

Sport að fá að sitja í hjá „þröskuldi“