Sérsveitin kölluð til eftir átök í Borgarholtsskóla

13.01.2021 - 13:24
Mynd með færslu
 Mynd: Höskuldur Kári Schram - RÚV
Sérsveit ríkislögreglustjóra voru kölluð út til aðstoða lögregluna á höfuðborgarsvæðinu eftir að tilkynning barst um átök í Borgarholtsskóla. Einhverjir virðast hafa verið vopnaðir, meðal annars með hafnaboltakylfu. Einhver slys urðu á fólki en þau eru ekki talin alvarleg. Samkvæmt upplýsingum fréttastofu virðast átökin tengjast einhvers konar uppgjöri. Allir sem eru taldir hafa komið þarna við sögu eru í fylgd lögreglu en þeir eru á bilinu 5 til 6.

Jóhann K. Jóhannsson, samskiptastjóri hjá ríkislögreglustjóra, staðfestir í samtali við fréttastofu að sérsveitin sé að aðstoða lögregluna á höfuðborgarsvæðinu við verkefni.

Elín Agnes Kristínardóttir, aðstoðaryfirlögregluþjónn, sagðist ekki geta tjáð sig mikið um málið en staðfesti þó að lögreglan væri með talsverðan viðbúnað við skólann og að einhver slys hefðu orðið á fólki. Samkvæmt upplýsingum fréttastofu eru þau meiðsl þó ekki alvarleg.

Ásgeir Þór Ásgeirsson, yfirlögregluþjónn, segir í samtali við fréttastofu að lögreglan sé að vinna úr upplýsingum um atvikið.  Þarna hafi verið margt fólk og því mikið af ábendingum sem þurfi að fylgja eftir.

Hann geti ekki staðfest að vopnum hafi verið beitt í átökunum en eitthvað hafi verið talað um hafnaboltakylfu. Ekki sé vitað hversu margir hafi þarna komið við sögu,  þetta hafi verið einhver hópur manna.  

Samkvæmt upplýsingum frá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu voru fjórir fluttir á slysadeild eftir átökin. Rannsókn lögreglu á vettvangi er nú í fullum gangi en hún beinist meðal annars að því hverjir voru gerendur og hverjir þolendur. Von er á tilkynningu frá lögreglu um málið á næstunni.

Samkvæmt upplýsingum fréttastofu eru kennarar við skólann í áfalli eftir atburðinn í hádeginu og einn þeirra sagði þetta síður en svo lýsandi fyrir skólamenninguna.

visir.is greindi fyrst frá.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV