Sekt fyrir tilraun til að snuða tollinn í jeppa-kaupum

13.01.2021 - 19:51
Mynd með færslu
 Mynd: Ragnar Visage - RÚV
Héraðsdómur Reykjaness dæmdi í dag konu til að greiða ríkissjóði rúmar 5,2 milljónir í sekt. Konan gaf upp lægra verð á Land Rover sem hún flutti til landsins frá Bretlandi í júní fyrir tveimur árum en jeppinn kostaði í raun og veru.

Starfsmaður tollstjóra gerði athugasemdir við verðið sem skráð var á jeppann og óskaði eftir skýringum frá konunni og greiðslustaðfestingu.

Konan sendi staðfestingu úr heimabanka fyrir erlendri millifærslu uppá 20 þúsund pund eða rúmar 3, 5 milljónir.  Hún sagði þetta  4 ára gamlan bíl, hefði verið eigu tveggja og lengi í sölu. Hún hefði fengið hann á þessu verði þar sem hún greiddi fyrir hann í einni greiðslu og flutti úr landi.

Tollyfirvöld voru ekki sannfærð, skoðuðu bílinn og fundu engar skemmdir eða eitthvað sem gæti talist óeðlilegt. Óskað var eftir upplýsingum um gjaldeyrisfærslur hjá konunni og komu þá í ljós tvær færslur af sama bankareikningi til sama fyrirtækis í Bretlandi. Önnur var upp á 21 þúsund pund eða 3,7 milljónir en hin upp á 14.700 pund, 2,6 milljónir.

Jafnframt var haft samband við sölustjóra hjá B&L sem sagði að verðið á svona bíl hér á landi væri í kringum 4 til 5 milljónir.  Það að stýrið væri hægra megin þýddi að söluverð hér á landi yrði ekki hátt. 

Tollgæslan leitaði einnig til kollega sinna á Bretlandi. Þar fékk hún grun sinn staðfestan um að verðið á bílnum hefði verið hærra en konan gaf upp eða 36.450 pund, rúmar 6,5 milljónir.

Konan taldi sig geta útskýrt málið. Fyrri millifærslan hefði verið fyrir jeppanum en sú seinni fyrir hjólhýsi.  Hún hefði ekki viljað fá hjólhýsið endurgreitt frá fyrirtækinu í Bretlandi þar sem hún hafi velt því fyrir sér að kaupa annað hjólhýsi eða annan jeppa. Þá væri hún einnig að hugsa um að fara í skóla í Bretlandi og það myndi fylgja því kostnaður að fá upphæðina endurgreidda.  Hún væri líka fjársterk og þyrfti ekki að fá peninginn aftur.

Héraðsdómur taldi skýringar konunnar ótrúverðugar. Það væri með miklum ólíkindablæ að ótengdur aðili í Bretlandi væri að geyma 14.700 pund sem væri töluverð fjárhæð.  

Dómurinn taldi jafnframt að það verð sem gefið væri upp í ákærunni, 35.700 pund, væri líklega heldur lægra en kaupverð var í raun. Engu að síður væri talið sannað að konan hefði með háttsemi sinni reynt að komast hjá innflutningsgjöldum upp á 2,6 milljónir króna.  

Var henni því gert að greiða tvöfalt það í sekt til ríkissjóðs eða 5,2 milljónir auk lögmannskostnaðar upp á 800 þúsund krónur.

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV