Samþykkja að ákæra Trump fyrir embættisglöp

13.01.2021 - 21:41
President Donald Trump walks down the steps before a speech near a section of the U.S.-Mexico border wall, Tuesday, Jan. 12, 2021, in Alamo, Texas. (Delcia Lopez/The Monitor via AP)
 Mynd: AP - The Monitor
Meirihluti fulltrúadeildar bandaríkjaþings samþykkti rétt í þessu að ákæra Donald Trump bandaríkjaforseta fyrir embættisglöp. Meint brot hans felast í því að egna stuðningsmenn sína til að ráðast inn í þinghúsið í Washington fyrir viku. 232 þingmenn vildu ákæra forsetann, þar á meðal 10 repúblíkanar. 197 greiddu atkvæði gegn tillögunni. Ákæran fer nú fyrir öldungadeild þingsins þar sem þingmenn ræða hana og taka ákvörðun um að sakfella eða sýkna forsetann.

Donald Trump er fyrsti forsetinn í sögu Bandaríkjanna sem er í tvígang ákærður til embættismissis. Fyrra skiptið var fyrir rúmu ári en þá var Trump sýknaður fyrir að hindra framgang réttvísinnar og misnotkunar valds, þegar hann falaðist eftir því að úkraínuforseti rannsakaði Joe Biden, sem þá barðist fyrir því að verða forsetaframbjóðandi Demókrataflokksins. Þá greiddu 52 þingmenn með sýknu, rúmlega helmingur þeirra sem eiga sæti í öldungadeildinni. Alls þurfa tæplega sjötíu prósent þingmanna að greiða atkvæði með sakfellingu til að hún náist fram, og verði greidd atkvæði að mestu eftir flokkslínum, eins og síðast, er mjög ólíklegt að Trump verði sakfelldur. 

Nú er mun meiri þrýstingur á forsetann en þá og ljóst að Trump hefur ekki sama stuðning og áður meðal repúblíkana. Mitch McConnell, leiðtogi þeirra í öldungadeildinni, segist ekki hafa gert upp við sig hvort hann ætli að greiða atkvæði með sýknu eða sakfellingu. 

Ólíklegt er að réttarhöld hefjist í öldungadeildinni fyrr en í næstu viku. McConnell hefur valdheimild til að kalla deildina saman til neyðarfundar en hann hefur lýst því yfir að hann ætli ekki að gera það. Hann hefur sagt að réttarhöldin hefjist í fyrsta lagi 19. janúar, degi áður en Joe Biden tekur við forsetaembættinu af Donald Trump.