Rússneski stjórnarandstöðuleiðtoginn Alexei Navalny tilkynnti í morgun að hann ætlaði að halda heim til Rússlands á sunnudag. Hann ætti bókað flug frá Berlín þann dag.
Navalny veiktist alvarlega í flugi á leið frá Síberíu til Moskvu í ágúst á nýliðnu ári. Flugvélinni var þá flogið til borgarinnar Omsk þar sem hann var lagður inn á sjúkrahús. Þaðan var farið með hann á sjúkrahúsi í Þýskalandi.
Navalny og stuðningsmenn segja útsendara stjórnvalda í Kreml hafa byrlað honum eitur að fyrirskipun Vladimirs Pútíns, forseta Rússlands.
Þeir hafa sakað stjórnvöld í Kreml um að reyna að hindra heimkomu Navalnys með því að hóta honum fangelsisvist, en í gær var lögð fyrir dómstól í Moskvu krafa um að skilorðsbundinn dómur sem hann hlaut árið 2014 yrði breytt í fangelsisvist á þeim forsendum að hann hefði rofið skilorð með dvöl sinni í útlöndum.