Fréttastofa fékk myndskeiðið sent en það virðist vera að ganga víða.
Þar sést hvernig tveir kennarar við skólann reyna að róa hóp nemenda niður þegar maður kemur inn í mynd með hafnaboltakylfu á lofti og slær til einhvers af miklu afli. Hann reynir að elta einhvern inn í skólastofu með kylfuna á lofti en öðrum kennaranum tekst að hrekja hann á brott.
Ársæll Guðmundsson, skólameistari Borgarholtsskóla, segir að ungir menn hafi komið inn í skólann. „Síðan verður hér einhver slagur sem síðan berst út á plan með stórum eggvopnum og bareflum.“ Sex voru fluttir á slysadeild eftir átökin, einhver þeirra eftir að hafa reynt að ganga á milli.
Ársæll segir að strax hafi verið sett af stað áætlun, allir nemendur hafi verið settir inn í kennslustofur og gangar rýmdir. Nemendur voru beðnir um að halda kyrru fyrir þar sem einn af ofbeldismönnunum gekk laus. Nemendur voru síðan sendir heim í hollum, leitað hátt og lágt til að ganga úr skugga um að allt væri tryggt og skólanum síðan læst. „Þetta voru þrír ofbeldismenn ganga nánast berserksgang.“
Ársæll segir þetta ekki bara aðför að Borgarholtsskóla heldur lýðræðislegri hefð að ganga í skóla. Það sé grafalvarlegt að svona geti gerst því það sé sterk lýðræðishefð að fólk geti gengið inn og út úr skóla og verið öruggt. „Þetta er bara aðför að öllu okkar samfélagi.“
Hann segir að skólahald verði með eðlilegum hætti á morgun og þá verði farið yfir atburði dagsins með nemendum og starfsmönnum og þeim boðið upp á áfallahjálp.