Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Mannslíkaminn er eitt allsherjar myrkraherbergi

Mynd: RÚV / RÚV

Mannslíkaminn er eitt allsherjar myrkraherbergi

13.01.2021 - 16:03

Höfundar

Haraldur Jónsson hefur framkallað sjö ný verk sem hann sýnir undir heitinu Ljósavél í Berg Contemporary.

Á rúmlega þrjátíu ára ferli hefur Haraldur Jónsson gert svæðið á milli hins venjulega og óvenjulega að leikvelli sínum. Öll hans helstu höfundareinkenni eru til staðar á nýju sýningunni í Berg Contemporary, sem er nánast eins og óbeint framhald af yfirlitssýningu á verkum Haraldar á Kjarvalsstöðum fyrir tveimur árum. 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
„Þegar kom að því að velja verk vildu þessi vera saman“

„Þegar ég var með yfirlitssýninguna Róf á Kjarvalsstöðum sá ég að það voru ýmis óuppgerð mál sem ég þurfti að kanna frekar. Ég vann þessa sýningu á innsæinu og lét verkin koma til mín. Þau bara birtust. Ég var með fleiri verk undir upphaflega en síðan þegar kom að ögurstundu að velja verk á sýninguna þá vildu þessi endilega vera saman.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Verkið Gátt er bókstaflega dregið úr æðum listamannsins.

Í verkunum má finna vísanir í mannslíkamann, skynjun, tilfinningar og tungumálið, svo fátt eitt sé nefnt. Eitt verkanna, Gátt, er beinlínis dregið úr æðum listamannsins. Haraldur stakk sig til blóðs í málningarvöruverslun,  lét skanna litinn og blanda málningu í sama lit. Hann tók fimm lítra, sem samsvarar magni blóðs í líkamanum, og málaði á kassalagan flöt í rými sýningarsalarins. 

„Já, ég sé líkamann sem eitt heljarinnar myrkraherbergi. Öll skynhrifin sem við verðum fyrir fara inn í líkamann og blóðið er einhvers konar framköllunarvökvi. Það er þráður í gegnum þessa sýningu, bæði titillinn Ljósavél, þessar innri myndir, þetta skuggaspil sem við göngum í gegnum frá degi til dags.“

Fjallað var um sýninguna í Menningunni. Horfa má á innslagið í spilaranum efst í fréttinni.

 

Tengdar fréttir

Myndlist

Píkurósir á dekkjaverkstæðinu