Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Krafa um óflekkað mannorð þingmanna en ekki forseta

Mynd: Arnar Páll Hauksson / Arnar Páll Hauksson
Samkvæmt stjórnarskrá Íslands gæti forseti sem leystur hefur verið frá embætti áður en kjörtímabilinu lýkur boðið sig fram aftur seinna. Þetta segir aðjúnkt við lagadeild Háskólans í Reykjavík. Ef Bandaríkjaforseti verður ákærður þýðir það hins vegar að hann getur ekki aftur boðið sig fram til embættisins.

Demókratar leita nú leiða til að koma Trump forseta frá völdum, annaðhvort með því að ákæra hann til embættismissis eða að 25. viðauka stjórnarskrárinnar verði beitt. Þingið fjallar alfarið um ákæruna. 25. viðaukinn fjallar um að mögulegt er að víkja Bandaríkjaforseta úr embætti ef hann er talin óhæfur til að sinna starfi sínu. Mike Pence, varaforseti gæti virkjað greinina. Hann lýsti því yfir í gær að ætlað ekki að virkja viðaukann. 

Þetta eru leiðir til að koma Bandaríkjaforseta frá völdum. En hvernig ríma þessar reglur við þær reglur sem gilda á Íslandi þegar kemur að því að koma til dæmis forseta Íslands frá völdum eða forsætisráðherra?

„Bandaríska kerfið rímar auðvitað illa við íslenska kerfið því við erum með forseta annars vegar og forsætisráðherra hins vegar. Við vitum að íslenski forsetinn er, við getum ekki sagt valdalaus, en hann fer ekki með mikið efnislegt vald. Forsætisráðherra okkar hefur meiri valdheimildir sem eru þá líkari þeim valdheimildum sem forseti Bandaríkjanna hefur,“ segir Elín Ósk Helgadóttir, aðjúnkt við lagadeild Háskólans í Reykjavík. Hún þekkir líka vel til bandarískra stjórnmála eftir fimm ára búsetu þar.

„Þegar á að koma bandaríska forsetanum frá völdum er sú ákvörðunartaka mjög pólitísk. Neðri deild þingsins tekur ákvörðun um ákæru og síðan er það öldungadeildin sem að samþykkir og það þarf aukinn meirihluta þar. Forseti hæstaréttar stýrir því þinghaldi. En slík ákvörðunartaka er ekki af lögfræðilegum meiði heldur af pólitískum meiði meðan staðan á Íslandi er frekar þannig að þegar á að reyna að koma forseta frá völdum þá erum við með ákvörðunartöku sem er pólitísk að hluta en líka sem krefst þátttöku þjóðarinnar. Forsetinn er eini þjóðkjörni embættismaðurinn sem við höfum. Inn í stjórnarskrána er byggt kerfi sem heimilar þjóðinni að koma honum frá völdum.“

Þjóðin ákveður hvort forseti fer frá völdum

Þingið getur farið fram á að forsetinn verði leystur frá völdum. Hvernig fer það fram og hvað þarf forsetinn að hafa til saka unnið?

„Það er gerð sú krafa að þrjá fjórðu hluta þingmanna þurfi til að samþykkja að víkja forseta frá völdum. Það hafa verið nefnd dæmi eins og að hann sé alvarlega andlega veikur og að það sé mikil togstreita á milli forseta og þings. Forseti hafi ef til vill beitt synjunarvaldi úr hófi eða hafi brotið af sér. Brotið almenn landslög,“ segir Elín Ósk.  Geri Alþingi slíka kröfu þurfi aukinn meirihluta til að samþykkja slíka kröfu. Síðan fari krafin í þjóðaratkvæðagreiðslu.

„Það er kannski svolítið einstakt að þeir aðilar sem kusu forsetann fá þá að taka þátt í því að koma honum frá völdum. Auðvitað er þetta ekkert alveg einstakt en algengara er þó að þingið hafi þetta hlutverk. Síðan er það þá einhvers konar dómstóll sem fjallar um það lögfræðilega hvort forseti hafi brotið af sér með einhverjum hætti.“

Í 11. grein íslensku stjórnarskrárinnar er nákvæmlega fjallað um hvernig hægt er að leysa forseta frá embætti áður en kjörtímabili hans lýkur. Ef þjóðin er ekki sammála vilja þingsins og kýs gegn því að forseti fari frá fer af stað ákveðin atburðarás. 

„Þegar þingið hefur samþykkt kröfuna þá þarf forseti að fara frá. Þjóðaratkvæðagreiðsla þarf að eiga sér stað innan tveggja mánaða frá samþykki þingsins. Síðan ef þjóðin er ekki sammála þinginu þá getum við gagnályktað frá stjórnarskrárákvæðinu og sagt að þá tekur forseti aftur við störfum. Og hans fyrsta verk verður væntanlega að skrifa undir beiðni forsætisráðherra um þingrof. Það þarf að rjúfa þing ef tillagan er ekki samþykkt og það þarf að boða til nýrra kosninga.“

Allar vantrauststillögur felldar nema ein

Völd forseta Íslands eru allt önnur og minni en völd Bandaríkjaforseta. Íslenski forsætisráðherrann kemst næst því að hafa þau völd, en samt ekki. Hvað er þá til ráða ef þingið vill koma forsætisráðherra frá völdum?

„Við erum auðvitað með þetta vantraustsúrræði en það má kannski segja að það sé svolítið bitlaust úrræði. Frá því að lýðræðið var stofnað 1944 þá hafa verið settar fram 25 tillögur um vantraust. Þar af hafa 24 verið á ríkisstjórnina en einungis ein á ráðherra. Allar þessar vantrauststillögur hafa verið felldar utan ein. Það var samþykkt vantrauststillaga 1950 á minnihluta stjórn Ólafs Thors. Úrræðið er nokkuð bitlaust því ef við erum með meirihlutastjórnir þá er það nú oftast þannig að meirihluti þings stendur þá með ríkisstjórn,“ segir Elín Ósk.

Mynd með færslu
 Mynd: Lilja Jóns - Sagafilm
Ólafur Darri Ólafsson í hlutverki Benedikts Ríkarðssonar

Veikindi geta verið ástæða

Þjóðin fylgdist með Benedikt Ríkarðssyni forsætisráðherra í sjónvarpsþáttunum Ráðherranum. Hann var með geðhvörf. Reynt var að svipta hann sjálfræði en að lokum viðurkenndi Benedikt að hann væri veikur og ófær um að halda um stjórnartaumana. En er eitthvað tekið á svona málum til dæmis hugsanlegum veikindum ráðherra?

„Ólafur Jóhannesson nefnir í Stjórnskipunarréttinum sínum frá 1960 að þetta sé ein af ástæðunum fyrir því að það er mögulega hægt að gera kröfum um að forseti verði leystur frá embætti. Þetta er ein af ástæðunum sem eru mögulegar því það eru engar kröfur byggðar inn í stjórnarskrána. Þetta gæti verið ein af ástæðum þess að minnihluti eða einhverjir þingmenn fara fram á vantraust á einstaka ráðherra. Aftur á móti erum við líka með þetta Landsdómsúrræði sem við þekkjum úr stjórnarskránni. Það úrræði tekur til ráðherra þegar við erum að tala um embættisrekstur þeirra. Það eru í raun þessar tvær leiðir vegna einhverra brota ráðherra í starfi, að lýsa yfir vantrausti og Landsdómur. Landsdómsleiðin virkjast bara við embættisrekstur og andleg veikindi og þess háttar geta ekki fallið þar undir.“

Aðrar kröfur til forseta en þingmanna

Það má kannski segja að Landsdómur sé að einhverju leyti svipað verkfæri og ákæra á hendur Bandaríkjaforseta. Ef hann verður ákærður til embættismissis þýðir það jafnframt að hann getur ekki boðið sig fram til forseta aftur. Ef Trump verður ákærður mun niðurstaða ekki liggja fyrir áður en embættistakan fer fram í næstu viku eða þann 20. janúar. Rekstur málsins mun halda áfram hugsanlega til að ná því fram að fráfarandi forseti bjóði sig ekki fram aftur. En hvað með ef ráðherra er dæmdur í Landsdómi? Væri hann áfram kjörgengur sem þingmaður eða gæti hann boðið sig fram? Elín Ósk segir að þetta sé eitthvað sem þurfi að skoða.

„Það er gerð sú krafa að þingmenn séu með óflekkað mannorð. Þá þarf að velta fyrir sér hafi ráðherra verið dæmdur í Landsdómi og viðkomandi ætli að bjóða sig fram til Alþingis og kannski að verða ráðherra í kjölfarið hvort mannorð hans hafi flekkast við það. Í þessu sambandi er líka ágætt að velta fyrir sér stöðu forsetans. Það er áhugavert að í íslensku stjórnarskránni eru kjörgengisskilyrði forseta önnur en kjörgengisskilyrði þeirra sem bjóða sig fram til Alþingis. Það er ekki gerð krafa til forseta að hann sé með óflekkað mannorð. Þannig að ef forseta yrði komið frá völdum á grundvelli ákvæða stjórnarskrár þá kemur það í sjálfu sér ekki í veg fyrir að hann geti boðið sig fram aftur.“

Elín Ósk segir er að vissu leyti sé ósamræmi þarna á milli. Það er kannski einkennilegt að það séu gerðar þær kröfur að alþingismenn séu með óflekkað mannorð en ekki forseti.

„Okkur finnst kannski ólíklegt að einstaklingur sem er með flekkað mannorð geti fengið kosningu sem forseti. Það er samt ágætt að átta sig á því að það að vera vikið úr embætti sem forseta kemur ekki endilega í veg fyrir að þú getir boðið þig fram aftur. Stjórnarskráin kemur ekki í veg fyrir það meðan bandaríska stjórnarskráin heimilar ákvörðunartöku sem þessa að meina forseta að bjóða sig fram aftur,“ segir Elín Ósk.