Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Komast loks í ræktina og í bumbubolta

13.01.2021 - 23:18
Margvíslegar breytingar á samkomutakmörkunum tóku gildi í dag. Fólk streymdi í líkamsrækt af ýmsu tagi í dag eftir margra mánaða bið og formið er misgott.

Nú mega 20 manns koma saman að hámarki í stað 10 manns áður. Íþróttaæfingar bæði barna og fullorðina eru leyfðar með og án snertingar. Ekki mega fleiri en 50 manns vera í sama rými. Þá mega íþróttakeppnir fara fram, en án áhorfenda.

100 manns mega vera við útfarir og 20 manns við erfidrykkju. Sviðslistir, bíósýningar og menningarviðburðir eru leyfir. 50 manns mega vera á æfingum og á sýningum. Sitjandi gestir í sal mega vera allt að 100 fullorðnir og 100 börn fædd 2005 og síðar. Gestir skulu sitja í skráðum sætum. Áfram skal viðhafa tveggja metra reglu og grímuskyldu. 

Þeir sem teknir voru tali í líkamsrækt í dag glöddust mjög yfir þeim breytingum

„Þetta er mjög kærkomið.“

Hvernig er formið?

Við skulum segja að það er frekar lélegt út af mikilli pásu.“

En það stendur til batnaðar.

Já vonandi,“ segir Guðjón Hólm Gunnarsson.

„Mér leið eins og ég væri að fara á djammið. Þetta skiptir öllu máli fyrir mig, þetta er rosalega fastur punktur í minni rútínu, er í vinnunni, kem í hádeginu, hressi mig við og kem svaka fersk til baka,“ segir María Kristjánsdóttir, nýkomin úr hjólatíma.

Það er nú ekkert sérstakt veðrið í dag, það hlýtur að vera kærkomið að komast inn.

Það er mjög gott. það er sumt orðið mjög þreytt heima og þessir rokgöngutúrar eru orðnir  frekar þreyttir, svo þetta er mjög góð tilbreyting. Ég held að maður hafi samt farið að læra að meta útiveruna í staðinn sem er mjög jákvætt,“ segir Gréta Bentsdóttir.

Og á gervigrasinu í Laugardal máttu nokkrar knattspyrnukempur koma saman í hádegisbolta í dag og leika listir sínar.

Er ekki kærkomið að komast í bolta?

„ Jú, algjör útráð fyrir skap og tæmir hugann við að einbeita þér að tuðrunni og hleypur eins og andskotinn um allan völl, nema ég að vísu.“

Hvernig kemur hópurinn undan vetri?

Hann hefur bæt á sig svolítið. Hangigjötið er feitt og gott og hefur góð áhrif. Menn með smá farangur. Mikinn farangur, það er gott á æfingarnar. Svo léttumst við þegar fer að vora og þá verðum við eins og kálfar,“ segir Magnús Dan Bárðarson.

Hvernig er formið?

„Þetta er allt að koma. Það er nóg inni. Við þurfum að fara bara varlega og meiða okkur ekki,“ 

Þetta eru engin smá tilþrif.

„Þetta eru taktar, þetta er bara í boði í dag,“ segir Flosi Helgason.