
Stofnanirnar voru í umsjón kaþólsku kirkjunnar. Um 56 þúsund konur og 57 þúsund börn dvöldu á þeim eða fæddust þar allt frá árinu 1922 þar til síðustu stofnuninni var lokað árið 1998. Svipaðar stofnanir voru við lýði víðar í heiminum, en að sögn nefndarinnar voru þær flestar á Írlandi miðað við höfðatölu.
Alls er talið að um níu þúsund börn hafi látið lífið á stofnununum, eða um 15 af hverjum 100 sem fæddust þar. Vanræksla og vannæring áttu sinn þátt í því að dánartíðni ungbarna var um tvöfalt hærri á þessum stofnunum en á landsvísu á þessum árum, hefur Guardian eftir skýrslunni. Í skýrslunni segir að í stað þess að reyna að bjarga lífum barna sem einstæðu mæðurnar fæddu hafi kerfisbundið verið dregið úr möguleikum þeirra á að lifa af.
Andleg ör á eftirlifendum
Rannsóknin hófst eftir að í ljós kom árið 2014 að engin gögn voru til um greftrum nærri 800 barna sem dóu á Bon Secours stofnuninni í Tuam. Líkamsleifar margra þeirra fundust við uppgröft á lóð stofnunarinnar.
Ekkert bendir til þess að íbúar stofnananna hafi verið beittir kynferðisofbeldi. Einhverjir greina frá líkamlegu ofbeldi en fjölmargar ásakanir eru um andlegt ofbeldi, sem situr enn í mörgum eftirlifenda. Konurnar voru ekki neyddar til þess að leita til stofnananna. Þær áttu þó fæstar annarra kosta völ, þar sem þeim var oft úthýst af fjölskyldum sínum. Á þessum tíma fylgdi því mikil skömm að eignast barn utan hjónabands á Írlandi.
Írum einum að kenna
Micheal Martin, forsætisráðherra Írlands, sagði á blaðamannafundi í gær að Írar gætu engum kennt um þessar hörmungar nema sér sjálfum. „Við gerðum okkur þetta sjálfum sem samfélag. Við komum ömurlega fram við konur, við komum ömurlega fram við börn." Hann flytur opinbera afsökunarbeiðni fyrir hönd írsku stjórnarinnar á þinginu í dag.