Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

„Í guðanna bænum ekki byrja að knúsa alla“

Haldist í hendur.
 Mynd: sanja gjenero - RGBStock
„Í guðanna bænum ekki byrja að knúsa alla,“ segir Hildur Helgadóttir hjúkrunarfræðingur sem á sæti í farsóttarnefnd Landspítalans. Hún vonar að fólk láti það ekki verða sitt fyrsta verk eftir pestina að knúsa ömmu og alla og að fólk haldi áfram að þvo sér um hendur. Minna virðist vera af sýkingum af ýmsu tagi núna á meðan heimsfaraldrinum stendur og af því má draga lærdóm.

Fólk er minna lasið

Mikið hefur dregið úr niðurgangspestum, öndunarfærasýkingum og eyrnabólgu hjá börnum vegna breyttrar hegðunar fólks í heimsfaraldrinum. Þetta hefur komið fram í máli sóttvarnaryfirvalda og samkvæmt upplýsingum frá embætti landlæknis hefur verulega dregið úr notkun sýklalyfja ekki síst vegna þess að öndunarfærasýkingum hefur fækkað. Það má lesa út úr tölum sem birtar voru í Talnabrunni landlæknis í sumar.  

Reglulega hafa borist fréttir, undanfarin ár, af alvarlegum sýkingum á Landspítalanum sem hefur valdið gífurlegu álagi á sjúkrahúsinu. Hildur segir að það sé tilfinning manna að minna sé um umgangspestir. „Við höfum ekki fengið nóró faraldur, sjö níu þrettán, ekki í fyrra vetur og ekki núna. Inflúensan í ár er ekki komin en það verður bara mjög áhugavert, kemur hún og hvernig mun hún verða.“ Eitt og annað sé af öndunarfæraveirum þarna úti í samfélaginu en heilt yfir sýnist mönnum að það sé minna um umgangspestir. „Fólk er bara minna lasið. Það er ekki annar hver krakki á leikskóla veikur heima o.s.frv. þannig að það er eitthvað í þessu.“

Þjóðin fékk almennilega kennslu í sóttvörnum

Hildur segir að líklega hafi þjóðin í fyrsta skipti, árið 2020, fengið almennilega kennslu í persónulegum sóttvörnum og fengið að vita hvað það að þvo sér um hendurnar er mikilvægt. Það sé í raun og veru stórfurðulegt að það sé ekki partur af aðalnámskrá. Það ætti að kenna um handþvott í lífsleikni 101 því að það að þvo sér um hendurnar sé lykill að öllum sóttvörnum. „Og þessar umgangspestir eru allar meira og minna með sömu smitleiðirnar þannig að þegar við lærum að rjúfa smitleiðina fyrir covid þá erum við að rjúfa smitleiðirnar fyrir rosalega margar aðrar veirur. Þannig að ég held að við höfum verið mjög sofandi sem samfélag gagnvart sýkingavörunum undanfarna áratugi.“

Börn sett veik í leikskólann 

Sagt var frá því í fréttum að í Danmörku hefði verið ávísað 70% minna af sýklalyfjum til barna í kórónuveirufaraldrinum. Danski landlæknirinn taldi upp nokkrar skýringar á þessu meðal annars að hreinlæti í leikskólum hafi áður verið ábótavant, börn séu mörg í litlum rýmum og leiki sér minna úti við en áður og dæmi séu um að foreldrar hafi sent börn sín hálf lasin í leikskólann. Þetta hafi breyst þegar flestir foreldrar unnu heima í faraldrinum. 

Hildur tekur undir þetta. Það hafi ekki verið línan undanfarin ár að fólk eigi að vera heima ef það er með einhvern kverkaskít. „Það hefur verið hvatt til þess að fá sér panodil og drífa sig. Það er rosaleg  vinnuharka í þessari þjóð og við höfum gert þetta. Við höfum farið veik í vinnuna. Þannig að þegar við hættum því og leikskólabörnin fara ekki lengur veik í leikskólann sinn að þá er það náttúrlega bara sýkingarvarnir og vörn fyrir hina.“  

„Í guðanna bænum ekki knúsa“

Hildur hefur orðið vör við það, á Facebook, að fólk segist ætla að knúsa alla, ömmu og alla um leið og pestin er gengin yfir. „Ég segi bara í guðanna bænum ekki gera það. Ekki láta það vera fyrsta verkið.“ Knúsmenningin á Íslandi sé als ekki gömul. Einu sinni hafi karlar kysst á munninn þegar þeir hittust. Það hafi svo breyst og handaband hafi orðið algengt í langan tíma. Síðan hafi fólk hætt því og sagt bara hæ. „En svo fór að koma þetta óskaplega knús, allir að faðmast. Og ég held að það verði margir mjög fegnir að vera lausir við það.“

Sem dæmi megi nefna átta manna saumaklúbbi sem hittist eitt kvöld. Allar komi frá sitt hvoru heimilinu og allar knúsast. „Þú getur bara verið búið að koma af stað kvefpest eða inflúensu eða niðurgangspest eða guð má vita hverju. Þannig að ég held að við getum lært að þetta er svo ódýrt, þetta kostar ekki neitt að þvo sér um hendurnar og knúsa ekki en ávinningurinn er bara endalaus hvert sem litið er, færri veikindadagar, færri fjarvistir úr skóla, færri alvarlegri tilfelli af þeim sem verða veikir o.s.frv. o.s.frv.“    

Handþvottur getur bjargað mannslífum

Hildur segir að hægt sé að tala um að mannslíf í þessu samhengi. Nóróveirufaraldrar hafi komið upp á sjúkrahúsum og öldrunarstofnunum nánast á hverju ári og hafi leikið stofnanirnar stundum grátt. Á Landspítalanum hafi dregið úr þeim sem megi þakka góðum sýkingavörnum og mikilli fræðslu um hvernig eigi að rjúfa smitleiðir og auka hreinlæti. Nóróverusýking sé gríðarlega alvarleg og leggst mjög þungt á þá sem eru veikir fyrir. Hrumir aldraðir þoli mjög illa að fá nóróveirusýkingu. „Það er alveg öruggt að það hefur átt þátt í andlátum margra þeirra kannski fyrr en ella hefði orðið. Og það á við um allt mögulegt og inflúensan og fleiri pestir. Ég held að við björgum mannslífum ef við höldum áfram að þvo okkur um hendurnar og höldum persónulegum sóttvörnum.“

Landspítalinn var galopinn 

Heimsóknarbann var sett á á Landspítalanum í upphafi fyrstu bylgju covid hér á landi til að lágmarka áhættu á að pestin bærist inn á spítalann. Fyrir þann tíma var Landspítalinn mjög opinn. Ekki voru gerðar athugasemdir ef fólk kom á öðrum tímum en heimsóknartímum. Hægt var að koma í heimsókn til sjúklinga allan daginn og langt fram á kvöld. Ekki voru heldur gerðar athugasemdir við fjölda heimsóknargesta. Fólk kom í heimsókn oft margir saman og hafði jafnvel með sér lítil leikskólabörn með kvef.

Eftir heimsóknarbannið gerbreyttist landslagið. Hildur er ekki með tölur um tíðni sýkinga en segir að þetta sé tilfinning manna. Reglur um heimsóknir hafi verið lausar í reipunum og gamaldags. „Því á spítala í dag liggur bara fárveikt fólk sem þolir ekki miklar heimsóknir en þarf sína nánustu hjá sér. Ég held að við þurfum bara að endurskoða þetta allt saman í ljósi þessarar reynslu og breytts landslags, hverjir það eru sem eru inniliggjandi á sjúkrahúsi.“ 

Höfum lært margt af heimsfaraldrinum

Ljóst er að heimsóknarbann sé skaðlegt en hægt sé að hafa ákveðna stjórn á heimsóknum án þess að allt fari í fyrra horf. „Ég reikna ekki með því að við förum í mjög miklar tilslakanir þó að hér verði allir orðnir bólusettir og allt komið í lag.“  „Það vill enginn heimsóknargestur bera inflúensu eða nóróveiru eða eitthvað slíkt í veikan aðstandanda sinn.“  

Og að lokum:

“Haldið áfram að þvo ykkur um hendurnar og haldið áfram að gæta að fjarlægð og ekki fara veik í vinnuna og ekki senda veik börn í skólann og muna að það er ekki ástæða til að halda að þetta sé síðasti heimsfaraldurinn. Það getur komið meira.“

Bergljót Baldursdóttir
Fréttastofa RÚV