Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Hugnast vottorð um neikvætt próf innan 48 tíma við komu

13.01.2021 - 20:50
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir vill fara svipaða leið og nágrannalönd okkar að krefja alla komufarþega til landsins um vottorð um neikvætt COVID-19 próf. Margar Evrópuþjóðir hafa tekið upp slíkar reglur og er ýmist gerð krafa um að próf sé neikvætt 24, 48 og 72 tímum frá brottför.

„Ég held að 48 tíma væri nokkuð sanngjarnt. Þá erum við að gera það þannig að tryggja það að fólk er ekki að smitast í millitíðinni, frá því að það fær neikvætt próf og kemur. Það er ekki hægt að tryggja það en það er til viðbótar þeim aðgerðum sem eru í gangi á landamærunum.“ 

Fólk komi þá aðeins til landsins sé það með vottorð um neikvætt próf og getur valið um að fara aftur í próf við komuna, fimm daga skimunarsóttkví og svo annað próf eða 14 daga sóttkví.

„Flestir sem greinast á landamærunum núna eru með íslenska kennitölu og flestir af þeim eru annað hvort með íslenskt eða pólskt ríkisfang,“ segir Þórólfur. „Svo eru reyndar aðrar þjóðir þarna inn í.“

Það er spurning um það hvort skilaboð ykkar í sóttvörnum séu að komast inn í þennan hóp, samfélag Pólverja sem telur 20 þúsund manns eða meira?

„Já það er góð spurning, við höfum lagt mikið á okkur í almannavörnum og hjá sóttvarnalækni að koma skilaboðum inn í þennan hóp sérstaklega. Við erum með túlka á öllum okkar upplýsingafundum, við erum með sérstaka tengiliði inn í þessa hópa til þess að reyna að koma þessum skilaboðum áleiðis og auðvitað veit maður ekki hverju það skilar á endanum en við erum sannarlega að reyna allt sem við getum.“