Hefja skipulega ræktun burnirótar á Íslandi

Mynd: Pure Natura / Pure Natura

Hefja skipulega ræktun burnirótar á Íslandi

13.01.2021 - 14:04

Höfundar

Á jörðinni Huldulandi í Hegranesi í Skagafirði búa hjónin María Eymundsdóttir og Pálmi Jónsson. Þar hafa þau gert tilraunir með ræktun burnirótar, sem kölluð hefur verið gingsen norðursins og er eftirsótt vara í heilsuiðnaðinum. Draumurinn er að stofna samvinnufélag bænda um ræktun burnirótar.

Hugmyndin kviknaði við eldhúsborðið

Verkefnið er samstarf fjögurra sveitunga í Hegranesinu en að sögn Maríu kviknaði hugmyndin við eldhúsborðið hjá þeim Hildi Magnúsdóttur og Halldóri Gylfasyni. Hildur er stofnandi og framkvæmdastjóri Pure Natura, íslensks fyrirtækis sem nýtir innmat sem fellur til úr sauðfjárslátrun og framleiðir úr honum bætiefni. Í framleiðsluna eru einnig notaðar ýmsar jurtir, eins og burnirót. 

„Og þau voru að tala um hvað væri erfitt að fá íslenska burnirót, það væri í raun ekki hægt. Og þessi burnirót sem þau fengu var týnd villt í náttúrunni, uppi á fjöllum og á stöðum þar sem sauðfé kemst ekki í hana,“ segir María. Hún bendir á að slíkt sé ekki nógu sjálfbært, þar sem rótin er eini hluti plöntunnar sem er nýttur og plantan getur ekki haldið áfram að vaxa þegar búið er að taka ræturnar. Framleiðsla Pure Natura hafi því byrjað að reiða sig á burnirót sem ræktuð er í Alaska, þar sem áralöng reynsla er af ræktun hennar í beðum. 

Krefst mikillar þolinmæði í byrjun

Verkefnið á sér nokkurn aðdraganda. Fyrst fengu þau styrk frá Framkvæmdasjóði landbúnaðarins og gerðu þá nokkur tilraunabeð til að sjá hvernig best væri að fara að til að ná sem mestum vexti í ræturnar. María segir þetta vera mikla þolinmæðisvinnu í upphafi þar sem það taki fimm til sex ár að ná sem mestum gæðum, ef plantan er rætkuð upp frá fræi. „En eftir þessi fimm til sex ár þá á maður að geta uppskorið ríkulega,“ segir hún. 

Mynd með færslu
 Mynd: María Eymundsdóttir - Aðsend
Burnirótin mæld

María segir vaxtarhraðann þó eiga eftir að koma í ljós miðað við íslensk skilyrði. Miðað við rannskóknir og skýrslur sem þau hafa lesið um ræktun burnirótar í sambærilegum svæðum í Alaska og Kanada, þá tekur það plöntuna um fimm ár að skila sem mestum gæðum. 

Markmiðið að stofna samvinnufélag

Nýverið fékk verkefnið styrk frá Uppbyggingarsjóði Norðurlands vestra og María segir að ætlunin sé að nýta styrkinn til að stórauka framleiðsluna. Draumurinn er að fara í lærdómsferð til Alaska og skoða aðstæður og hvernig sé best að planta og uppskera. 

Og þið eruð fyrst á Íslandi til að hefja skipulagða ræktun á þessari rót?  

„Já, við vitum allavega ekki um neinn annan sem er að gera þetta. En markmiðið er að þegar við erum búin að fá góða reynslu af þessu, og komin með ágæstisbanka af plöntum, þá verður hægt að stofna samvinnufélag bænda um ræktun burnirótar,“ segir María. Þannig gætu áhugasamir bændur hafið burnirótarræktun sem aukabúgrein. Þau María og Pálmi myndu þá bjóða bændum upp á aðstöðu til að fullvinna afurðina auk þess að þau myndu geta boðið upp á forræktaðar plöntur til afhendingar. 

Rætt var við Maríu Eymundsdóttur í Sögum af landi á Rás 1. Hægt er að hlusta á viðtalið í heild sinni í spilaranum hér að ofan. 

Tengdar fréttir

Umhverfismál

Samtvinna landbúnað og náttúruvernd

Innlent

Iðnaðarhampur vex og dafnar í Grímsnesi

Menntamál

Áhersla á að bæta innviði í garðyrkju í LBHÍ

Mannlíf

Burnirót gegn stressi og kvíða