Hugmyndin kviknaði við eldhúsborðið
Verkefnið er samstarf fjögurra sveitunga í Hegranesinu en að sögn Maríu kviknaði hugmyndin við eldhúsborðið hjá þeim Hildi Magnúsdóttur og Halldóri Gylfasyni. Hildur er stofnandi og framkvæmdastjóri Pure Natura, íslensks fyrirtækis sem nýtir innmat sem fellur til úr sauðfjárslátrun og framleiðir úr honum bætiefni. Í framleiðsluna eru einnig notaðar ýmsar jurtir, eins og burnirót.
„Og þau voru að tala um hvað væri erfitt að fá íslenska burnirót, það væri í raun ekki hægt. Og þessi burnirót sem þau fengu var týnd villt í náttúrunni, uppi á fjöllum og á stöðum þar sem sauðfé kemst ekki í hana,“ segir María. Hún bendir á að slíkt sé ekki nógu sjálfbært, þar sem rótin er eini hluti plöntunnar sem er nýttur og plantan getur ekki haldið áfram að vaxa þegar búið er að taka ræturnar. Framleiðsla Pure Natura hafi því byrjað að reiða sig á burnirót sem ræktuð er í Alaska, þar sem áralöng reynsla er af ræktun hennar í beðum.
Krefst mikillar þolinmæði í byrjun
Verkefnið á sér nokkurn aðdraganda. Fyrst fengu þau styrk frá Framkvæmdasjóði landbúnaðarins og gerðu þá nokkur tilraunabeð til að sjá hvernig best væri að fara að til að ná sem mestum vexti í ræturnar. María segir þetta vera mikla þolinmæðisvinnu í upphafi þar sem það taki fimm til sex ár að ná sem mestum gæðum, ef plantan er rætkuð upp frá fræi. „En eftir þessi fimm til sex ár þá á maður að geta uppskorið ríkulega,“ segir hún.