Juri Ratas, forsætisráðherra Eistlands. Mynd: EPA-EFE - EPA POOL
Juri Ratas, forsætisráðherra Eistlands, baðst lausnar í morgun eftir að upplýst var að flokkur hans Miðflokkurinn sætti rannsókn í sakamáli tengdu byggingaframkvæmdum í höfuðborginni Tallin.
Forystumenn Miðflokksins komu saman í gærkvöld til þess að ræða málið og stóð fundurinn langt fram á nótt.
Ratas kvaðst í morgun enga vitneskju hafa um þær ásakanir sem lægju til grundvallar rannsókninni eða hafa vísvitandi gert neitt rangt, en teldi réttast að segja af sér í þeim tilgangi að hjálpa til við að varpa ljósi á allar hliðar málsins.
Ratas hefur verið forsætisráðherra Eistlands frá því síðla árs 2016.