
Einn fékk bráðaofnæmi eftir bólusetningu
Bólusetningin hófst hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðinu klukkan eitt og lauk klukkan fjögur. Sjúkraflutningamenn, lögreglumenn og fleiri framlínustarfsmenn voru bólusettir, alls um fimm hundruð manns.Ragnheiður segir að allt hafi gengið mjög vel en einn hafi fengið bráðaofnæmi við lyfinu. „Eiginlega bara alveg í byrjun kom bráðaofnæmi fram og það var bara brugðist við því á hefðbundinn máta, og viðkomandi fór síðan upp á bráðamóttöku bara til að tékka. En ég hef alla vega ekki heyrt annað en að allt sé í lagi.“
Ofnæmisviðbrögð geti alltaf átt sér stað við bólusetningar en það sé mjög sjaldgæft. Fólk sé látið bíða í 15 mínútur eftir bólusetninguna til að fylgjast með hvort slíks verði vart. Ragnheiður beinir því til þessa sem séu með þekkt bráðaofnæmi að koma ekki í bólusetningu nema eftir að hafa haft samráð við lækni.
„Er þetta í fyrsta sinn sem bráðaofnæmi kemur upp við bólusetningarnar? Alla vega hjá okkur, það hefur ekki gerst áður. Hvorki af hinu bóluefninu frá Pfizer né þessu? Nei.“
Árni Friðleifsson, aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu var einn af þeim sem var bólusettur í dag: „Þetta var bara ánægjulegt, bara frábært. Við náttúrlega erum að starfa með slökkviliði og sjúkraflutningum og fleiri framlínufólki og þetta bara breytir öllu gefur okkur miklu meira öryggi fyrir að verða útsett. Þannig að þetta er bara frábær dagur.“