Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Búið að greina um 30 sýni starfsfólks hjartadeildar

13.01.2021 - 08:04
Mynd með færslu
 Mynd: Ásvaldur Kristjánsson - Landspítali
Búið er að skima hluta starfsfólks hjartadeildar Landspítala eftir að sjúklingur á deildinni greindist með COVID-19 síðdegis í gær. Í gærkvöldi voru allir 32 sjúklingar deildarinnar skimaðir og reyndist enginn þeirra smitaður. Sýnataka starfsfólks deildarinnar stóð fram á nótt og mun halda áfram fram eftir morgni. Niðurstöður úr um 30 sýnatökum liggja fyrir og reyndist ekkert sýnanna jákvætt.

Að sögn Stefáns Hrafns Hagalín deildarstjóra samskiptadeildar Landspítala má búast við að niðurstöður allra sýna liggi fyrir fljótlega upp úr hádegi. Þá þarf að skima gesti og aðstandendur sjúklinga. Stefán segir að enn liggi ekki fyrir hversu stór hópur það sé, en smitrakningarteymi vinni nú að því að kortleggja þann hóp.

Stefán segir að fari svo, að einhverjir starfsmenn reynist smitaðir, þurfi að leita aðstoðar af öðrum deildum spítalans.