Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

„Búið að afpanta flugið mitt til Íslands“

epa08120379 Netherlands' coach Erlingur Richardsson reacts during the preliminary round match between Latvia and the Netherlands at the EHF Handball Men European Championship in Trondheim, Norway, 11 January 2020.  EPA-EFE/OLE MARTIN WOLD  NORWAY OUT
 Mynd: EPA

„Búið að afpanta flugið mitt til Íslands“

13.01.2021 - 10:13
Margt bendir til þess að lið Grænhöfðaeyja verði þriðja liðið til að draga sig úr keppni vegna jákvæðra kórónuveirusmita á heimsmeistaramóti karla í handbolta sem hefst í dag. Fari svo er Holland þriðja varaþjóðin á lista Alþjóðahandknattleikssbandsins IHF. Erlingur Richardsson er landsliðsþjálfari Hollands og hann fer í það minnsta ekki með flugi til Íslands í hádeginu eins og upphaflega planið var og er klár í HM.

„Ég er bara staddur á hótelherbergi við Schiphol-flugvöllinn hér í Amsterdam. Það er í það minnsta búið að afpanta flugið mitt heim til Íslands á eftir og ég er á leiðinni í Covid-próf,“ sagði Erlingur í samtali við RÚV í morgun. 

Erlingur segir IFH verið í stöðugum samskiptum við hollenska sambandið. „Ef þetta verður ættum við að geta tekið flug yfir til Egyptalands annað kvöld. Það er verið að henda okkar leikmönnum í Covid-próf bara hér og þar í þessum töluðu orðum.“

Gott að fá leikina við Slóveníu

Erlingur var á ferðinni með hollenska landsliðinu í Slóveníu en Holland og Slóvenía áttust við í tveimur leikjum í undankeppni EM á dögunum. Fyrri leikurinn í Hollandi tapaðist með einu marki en jafntefli varð niðurstaðan í Slóveníu á sunnudag. 

„Það var rosalega gott fyrir okkur að fá þessa leiki við Slóveníu. Ég er með marga leikmenn að spila í Belgíu og Hollandi og þar eins og heima á Íslandi hefur ekkert verið spilað síðustu vikur og mánuði. Leikformið á mínum mönnum er ekki það besta sem gerir Slóveníuleikina enn mikilvægari. Við verðum því klárir í slaginn ef kallið kemur til Egyptalands,“ segir Erlingur og játar því að það væri gott að fá niðurstöðu í málið sem fyrst. 

„Við myndum þá væntanlega mæta Ungverjalandi í fyrsta leik á föstudag ef við tökum pláss Grænhöfðaeyja. Það væri gott að fá niðurstöðu í málið svo við getum farið að græja myndefni af andstæðingum og þar fram eftir götunum,“ segir Erlingur en Grænhöfðaeyjar eru í A-riðli mótsins ásamt Ungverjalandi, Þýskalandi og Úrúgvæ. 

Átti ekki von á kallinu

Hollendingar samþykktu að vera varaþjóð hjá IFH fyrir heimsmeistaramótið en á sunnudag voru allar upprunalegu keppnisþjóðirnar enn skráðar til leiks. Í gær drógu Tékkar og Bandaríkjamenn sig úr keppni og Norður-Makedónía og Sviss tóku þeirra sæti.

„Á sunnudag átti maður nú ekki von á því að þetta færi svona, sérstaklega þar sem við vorum þriðja varaþjóð og mjög stutt í mót. En svo virðast sum liðin ekki hafa gætt nægilega vel að sér í smitvörnum og þessi staða er því komin upp,“ segir Erlingur en bætir við. 

„Þegar við samþykkjum að vera varaþjóð gerum við okkur grein fyrir að þetta sé möguleiki og því verðum við algjörlega tilbúnir í verkefnið ef kallið kemur.“

Fari svo að Holland mæti til leiks á HM verða fimm íslenskir þjálfarar á mótinu. Guðmundur Guðmundsson þjálfar Ísland, Alfreð Gíslason Þýskaland, Dagur Sigurðsson Japan, Halldór Jóhann Sigfússon stýrir Barein og Erlingur myndi bætast í þennan hóp.