
„Breska afbrigðið“ dreifir sér hratt í Danmörku
Yfirvöld víðsvegar í Evrópu hafa miklar áhyggjur af því að þetta afbrigði nái fótfestu. Það er talið mun meira smitandi en önnur afbrigði. Engar vísbendingar eru um að það valdi alvarlegri veikindum eða að bóluefni virki ekki gegn henni en það er hins vegar talið valda meiri smitum hjá börnum.
Magnus Heunicke, heilbrigðisráðherra Danmerkur, sagði á upplýsingafundinum í dag að í desember hefðu 134 tilfelli fundist af breska afbrigðinu en þau væru nú orðin 208. „Þetta er afbrigði sem við vitum að er meira smitandi og þegar maður horfir á þróun mála á Englandi þá sér maður hversu fljótt það breiðist út.“ Nú séu 3,6 prósent þeirra sem greinast jákvæðir með þetta afbrigði en þeir voru 2,4 prósent.
Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, sagði í minnisblaði til heilbrigðisráðherra í síðustu viku að yfirvofandi hætta væri á því að breski stofninn nái að breiðast út hér innanlands. Faraldurinn erlendis mætti að miklu leyti rekja til þessa stofns.
Yfirmaður heilbrigðismála hjá Evrópusambandinu tók í sama streng í dag; stöðuna í Evrópu mætti að miklu leyti rekja til þessa afbrigðis. Evrópusambandið myndi aðstoða löndin við raðgreiningu sýna til að koma í veg fyrir að veiran breiddist út víðar.
Nick Hækkerup, dómsmálaráðherra landsins, hvatti landsmenn til að fara í sýnatökur, sérstaklega þeir sem enn færu til vinnu. Þeir sem eru í samskiptum við marga ættu að fara í sýnatöku einu sinni í viku.