„Afhverju mega fjórir ekki ættleiða barn?“

13.01.2021 - 12:33
Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Lagt er til að hjúskaparlög verði endurskoðuð þannig að fleiri en tveir geti skráð sig í sambúð, í þingsályktunartillögu sem þingmenn Pírata eru með í smíðum. Þingmaður flokksins segir að núverandi löggjöf endurspegli ekki breyttan tíðaranda.

Í greinargerð tillögunnar segir að forsendur sambúðar eftir kynvitund og kynhneigð komi löggjafanum ekki við. Fólk myndi alls konar sambönd um ævina og við hverja og hversu marga eigi ekki að vera háð lögformlegum fjöldatakmörkunum.

Gert er ráð fyrir að dómsmálaráðherra verði falið að endurskoða lögin.

Björn Leví Gunnarsson þingmaður Pírata er fyrsti flutningsmaður tillögunnar. Hann segir samfélagið hafi tekið miklum breytingum á síðustu áratugum og að lögin þurfi að endurspegla það.

Árið 2010 var hjúskaparlögum breytt og fallið frá því skilyrði að hjúskapur væri á milli karls og konu og í staðinn voru sett skilyrði um að hjúskapur væri á milli tveggja einstaklinga óháð kyni.

„Þá spyr maður sig sjálfkrafa, afhverju ekki þrír? Afhverju ekki fleiri? Afhverju mega fjórir ekki ættleiða barn til dæmis? Eða systkini sem kaupa saman íbúð? Afhverju mega þau ekki skrá sig í sambúð og fá þau réttindi sem fylgja því?" segir Björn.

Hann segir að þetta snúi líka að réttindum leigjenda.

„Nokkrir vinir mínir voru að leigja saman stóra íbúð fyrir nokkrum árum og vandamálið þar var að einn þeirra bar ábyrgð á leigusamningnum gagnvart hinum sem voru réttlausir. Það býr til alls konar vandamál varðandi húsaleigubætur og svoleiðis. Þannig að það eru núna fjöldatakmörk sem þurfa ekki að eiga við,“ segir Björn.

Björn segist ekki vita til þess að svipuð löggjöf sé til staðar í öðrum vestrænum ríkjum. Hann segir að breyting geti haft áhrif á erfðalög, samnýtingu persónuafsláttar og einnig lög um ættleiðingar barna.  

 

Höskuldur Kári Schram
Fréttastofa RÚV