Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

14 ára fangelsi fyrir að verða eiginkonu sinni að bana

13.01.2021 - 16:19
Mynd með færslu
 Mynd: Eggert Þór Jónsson - RÚV
Héraðsdómur Reykjaness dæmdi nú síðdegis karlmann í fjórtán ára fangelsi fyrir að verða eiginkonu sinni að bana á heimili þeirra í Sandgerði í mars á síðasta ári. Maðurinn sat í gæsluvarðhaldi frá því að hann var handtekinn í apríl og þar til Landsréttur felldi það úr gildi í október. Vísaði dómurinn meðal annars til niðurstöðu dómkvaddra matsmanna sem töldu að konan gæti hafa látist af öðrum völdum en köfnun við hálstak mannsins.

Lögreglunni á Suðurnesjum barst tilkynning um andlát konunnar þann 28. mars. Krafa um að maðurinn verði úrskurðaður aftur í gæsluvarðhald verður tekin fyrir í héraðsdómi klukkan 17. Engar miskabótakröfur voru uppi í málinu.

Í fyrstu benti ekkert til þess að eitthvað saknæmt hefði átt sér stað en eftir skoðun réttarmeinafræðings vaknaði grunur um að konunni hefði verið ráðin bani. Fjórum dögum eftir andlátið var maðurinn handtekinn og hann úrskurðaður í gæsluvarðhald.

Ákæra var gefin út í júní þar sem fram kom að saksóknara þætti einsýnt að maðurinn hefði banað konu sinni. Hún hefði látist af völdum köfnunar og ekkert lægi fyrir um að einhver annar gæti átt hlut að máli. Maðurinn neitaði sök þegar ákæran var þingfest í byrjun júlí.  Þar féllst dómari á beiðni verjanda mannsins um að þinghaldið yrði lokað. 

Um miðjan október ákvað Landsréttur hins vegar að sleppa manninum úr haldi eftir að héraðsdómur hafði fallist á áframhaldandi gæsluvarðhald. Dómkvaddir matsmenn höfðu þá komist að þeirri niðurstöðu að mögulegt væri að konan hefði látist af samverkandi áhrifum róandi lyfja og áfengis. Þeir töldu að ekki væri hægt að staðfesta að maðurinn hefði þrengt að hálsi konunnar rétt fyrir andlátið heldur kynni það að hafa átt sér stað allt að þremur dögum fyrr.

Aðalmeðferð í málinu fór síðan fram um miðjan nóvember og stóð í tvo daga.