Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Vill sjá Ísland leiðandi í gervigreindargarðyrkju

12.01.2021 - 23:52
Fljúgandi bílar, gervigreindargarðyrkja og heilsuúr fyrir tré eru meðal viðfangsefna Davids Wallerstein, sem stýrir nýjum fjárfestingum fyrir kínverska fyrirtækið Tencent sem er áttunda stærsta fyrirtæki heims. Hann segir mörg tækifæri nú fyrir íslenska brautryðjendur til að stofna leiðandi fyrirtæki með lausnir við loftslagsbreytingum og vill sjá Ísland setja á fót risa gervigreindargarðyrkjustöð.

„Ég tel að á þessum tíma í sögu okkar sé afar mikilvægt að ræða þessa hluti því nú erum við farin að sjá áhrif loftslagsbreytinganna sem hafa ýmis og stundum óvænt áhrif á veröldina,“ sagði David í Kastljósi í kvöld. 

Gervigreind skilvirkari við garðyrkjuna en menn

David vinnur nú í samstarfi við hollenska háskólann Wageningen við að framleiða mat með gervigreind og hefur áhuga á að Ísland leiði einnig slíkt verkefni. David segir að samstarfið hafi hafist með Wageningen fyrir þremur árum þegar hann fékk þá hugmynd að gervigreind ætti að geta stýrt gróðurhúsakerfum á skilvirkari hátt en manneskjur. Háskólinn efndi til keppni milli sérfræðinga sviði innanhúsræktunar og gervigreindar og síuendurtekið hafði gervigreindin betur en sérfræðingarnir. 

David veltir upp spurningunni hvort Ísland ráði við umfangsmikla gróðurhúsaræktun, í virkilega stórum stíl. 

„Það áhugaverða er að sé gervigreind beitt þá gerir það kleift að stýra gróðurhúsum á víðfeðmu svæði með fáu fólki því róbótar sjá að mestu um umhirðuna. Og við höfum þegar sýnt fram á að slík lausn með róbótum er afkastameiri en með manneskjum svo að útkoman verður betri með þeirri aðferð.“

Áhersla á græna hagsmuni skapar tækifæri fyrir Ísland

Hann segir það vekja upp áhugaverðar spurningar um hvernig Ísland nýti best auðlindir sínar, orku, vatn og land, fyrir sig og þannig að það get einnig tekið meiri þátt á alþjóðlegum mörkuðum. 

„Ég held að áhugaverðu tækifærin fram undan snúist um möguleikana við að sameina kapítalismann við hefðbundna græna hagsmuni,“ sagði David.

„Það sem á að einbeita sér að er það sem ýtir á markaðinn til að hvetja fólk til að breyta rétt og leysa úr raunverulegum vandamálum fyrir mannkynið, þar sem allir geta notið ábatans.“

Hann segir í þessu mörg tækifæri fólgin fyrir íslenska brautryðjendur til að koma á fót fyrirtækjum sem gætu haft mikil áhrif, ekki aðeins til að bæta lífsgæði á Íslandi heldur á heimsvísu með því að skapa samkeppnisforskot.

einar's picture
Einar Þorsteinsson
Fréttastofa RÚV
Valgerður Árnadóttir
Fréttastofa RÚV