Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Vilja þiggja eignir frá FISK þrátt fyrir viðhaldsþörf

12.01.2021 - 11:00
Myndir teknar með dróna.
 Mynd: RÚV - Jóhannes Jónsson
Oddviti Sveitarfélagsins Skagastrandar vill að sveitarfélagið þiggi eignir sem FISK Seafood hefur boðið þeim að gjöf. Húsin eru í misjöfnu ástandi og þarfnast sum mikils viðhalds.

Stjórnsýsluhúsið, rækjuverksmiðjan og síldarverksmiðja

Friðbjörn Ásbjörnsson, framkvæmdastjóri FISK, sagði frá því í opnu bréfi til starfsmanna á dögunum að til stæði að afhenda Skagastrendingum án endurgjalds nokkrar fasteignir í bænum. Þetta eru stjórnsýsluhús sem hýsir meðal annars Vinnumálastofnun, gamla rækjuverksmiðjan og síldarverksmiðja í bænum. Þrátt fyrir að húsin séu í misjöfnu ástandi og að töluverður kostnaður fylgi því að taka þau í gegn segir Halldór G. Ólafsson, oddviti sveitarfélagsins að tækifæri felist í gjöfinni. 

„Það þarf að taka til hendinni"

„Ástandið er auðvitað nokkuð misjafnt, það hefur ekki verið sinnt miklu viðhaldi undanfarin ár. Þannig að það þarf að taka til hendinni þar," segir Halldór. 

Sjáið þið fyrir ykkur að þiggja þessa gjöf ef af að verður?

„Já ég tel nú rétt að gera það. Það er mjög mikilvægt fyrir okkur að geta skapað Vinnumálastofnun ákjósanlegar aðstæður fyrir sína starfsemi og síðan er þá bara verkefni að reyna að koma hinum eignunum í not og skapa þannig ný tækifæri til atvinnurekstrar á Skagaströnd." 

En gæti ekki falist í því töluverður kostnaður að koma þessu í samt lag? 

„Jú jú þetta verður auðvitað gerast í einhverjum áföngum."