Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Vilja rannsókn á því hvað tafði rýmingu á Seyðisfirði

default
 Mynd: Almannavarnir/Ríkislögreglustj - RÚV
Heimastjórn Seyðisfjarðar vill að sett verði af stað rannsókn á því hvað varð þess valdandi að rýmingar á Seyðisfirði fóru ekki fram fyrr en aurskriður voru farnar að falla á bæinn. Þá segir stjórnin að endurskoða þurfi allt verklag í kringum hamfarir eins og þær sem urðu í desember.

Nánast allr rýmingar sagnfræði

Þetta kemur fram í fundargerð af fundi heimastjórnar Seyðisfjarðar frá því gær. Þar segir að nánast allar rýmingar sem framkvæmdar voru hafi verið gerðar of seint. 

„Heimastjórn gerir þá kröfu að strax verði hafin rannsókn á því hvað varð þess valdandi að rýmingar fóru ekki fram fyrr en skriður voru farnar að falla og nánast allar rýmingar sem framkvæmdar voru í raun sagnfræði? en ekki forspá eins og þær eiga að vera,“ segir í fundargerð heimastjórnar. 

Vilja að allt verklag verði endurskoðað

Þá segir heimastjórnin að endurskoða þurfi allt verklag í kringum hamfarir eins og þær sem urðu í desember. Sérstaklega þurfi að skoða hvar ábyrgð á ákvörðun um rýmingar liggur. Samkvæmt núgildandi reglum liggur ákvörðun um rýmingar hjá Veðurstofu varðandi snjóflóðahættu og hjá Almannavarnarnefnd varðandi aurskriðuhættu. Slíkt getur valdið misskilningi. „Endurskoða verður allt vinnulag við ákvarðanatökur við óvissuaðstæður og að ekki sé talað um hamfaraaðstæður eins voru í aðdragandi hamfaranna þann 18 desember síðastliðinn.“

Flækjustig hefði getað kostað mörg mannslíf

Leggur stjórnin til að að í báðum tilvikum eigi ákvörðun um rýmingu að liggja hjá Veðurstofunni.  „Núverandi staða þessara mála er algerlega óviðunandi enda ljóst að þetta flækjustig hefði getað kostað mörg mannslíf á Seyðisfirði.“